Djokovic missti af Opna ástralska meistaramótinu í janúar, þar sem hann átti titil að verja, vegna þess að hann var óbólusettur. Höfðu forsvarsmenn mótsins sett þá kröfu að allir tennisspilarar þyrftu að vera bólusettir til þess að fá að keppa. Honum var á endanum meinuð þátttaka og vísað úr landi.
Sá serbneski lék því sinn fyrsta leik á árinu í dag og mætti hann Ítalanum Lorenzo Musetti á Dúbaí meistaramótinu. Þar hafði Djokovic betur í tveimur settum, 6-3 og 6-3, og vann þar með sinn fyrsta sigur á árinu 2022.
Djokovic hefur ekki breytt afstöðu sinn til bólusetninga og mun hann því ekki láta bólusetja sig. Hann sagði í síðustu viku að hann væri tilbúinn að sleppa fleiri stórmótum eins og Wimbledon og Opna franska, verði þess krafist að hann láti bólusetja sig.