Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Hundruð manna strandaglópar í Bláa lóninu

19.02.2022 - 23:37
Mynd með færslu
Rútur eru lagðar af stað frá Bláa lóninu í fylgd lögreglu og björgunarsveita Mynd: Ásgeir Sverrisson
Hundruð fólks frá öllum heimshornum voru strandaglópar í veitingasal Bláa lónsins við Svartsengi í kvöld, þar sem Grindavíkurvegur var ófær og illa gekk að opna hann vegna bíla sem þar eru fastir í snjónum. Enn er fjöldi fólks í Bláa Lóninu en unnið að því að koma því í burtu.

Ásgeir Sverrisson leiðsögumaður var á meðal strandaglópanna og segir að um sex hundruð manns hafa verið föst í Bláa lóninu frá því klukkan átján í dag til að verða hálf tólf í kvöld, þegar þeim var sagt að fara út í rútur, sem verður ekið á brott í fylgd björgunarsveitabíla. Reykjanesbraut var lokuð um hríð en Grindavíkurvegur reyndist erfiðari viðfangs.

„Vandamálið er það að það eru svo margir bílar fastir á Grindavíkurveginum að þetta er ekkert auðvelt verkefni. Þeir eru að reyna sitt besta, en aðstæður hérna - ja, sennilega er Bláa lónið líklega besti staðurinn til að vera í þessum aðstæðum," sagði Sverrir.

Barinn og kaffiterían voru opin og boðið upp á kaffi og te eins og hver vildi. Hann hefur hins vegar áhyggjur af því fólki sem á bókað flug eldsnemma í fyrramálið.  

Fyrsta rútan burt um hálftólf

Um klukkan hálf tólf í kvöld var fólk kallað út í fyrstu rútu og var Ásgeir og hans fólk í þeim hópi. Rútan var komin út á Reykjanesbrautina fyrir miðnætti, en fjöldi fólks var þá enn í Bláa lóninu. Unnið er að því að koma því þaðan eins fljótt og auðið er.