Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Rússneska sendiráðið gagnrýnir tíst Guðna og Þórdísar

Guðni Th. Jóhannesson
 Mynd: RÚV - Skjáskot
Rússneska sendiráðið í Reykjavík lýsir þungum vonbrigðum með yfirlýsingar forseta og utanríkisráðherra Íslands á Twitter til stuðnings Úkraínu. Sendiráðið hvetur íslensk stjórnvöld til hófsemi og uppbyggilegrar umræðu.

Guðni Th. Jóhannesson forseti sendi Volodomyr Zelensky, úkraínskum kollega sínum kveðjur í tilefni sameiningardagsins 16. febrúar.

Hann áréttaði sömuleiðis samstöðu Íslands með aðildarríkjum NATÓ um ákall til Rússa um að virða fullveldi Úkraínu og minnka hernaðarumsvif við landamæri ríkjanna. 

Það gerði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir sömuleiðis.  Zelensky forseti  þakkaði stuðninginn en í yfirlýsingu rússneska sendiráðsins kveður við annan tón.

Þar eru orð bæði forseta og utanríkisráðherra sögð lýsa hlutdrægum og einhliða viðhorfum. Sömuleiðis að horft sé framhjá brotum úkraínskra stjórnvalda á Minsk-samkomulaginu frá 2015 þar sem komið var á vopnahléi í milli stríðandi fylkinga í austurhluta Úkraínu.

Einnig hafi nokkur vestræn ríki átt ríkan þátt í hernaðaruppbyggingu í landinu. Jafnframt hafi á þessu ári þyrpst þangað flugvélar frá hlaðnar vopnum og öðrum búnaði frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Kanada og Póllandi.

Því hvetur rússneska sendirráðið Íslensk stjórnvöld til að sýna meira jafnvægi og beita uppibyggilegri nálgun á öryggismál í Evrópu.

Mynd með færslu
 Mynd: Guðni Th. Jóhannesson/Twitter