Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Öryggi sjúklinga í hættu - stjórnvöld skoði aðgerðir

17.02.2022 - 19:23
Mynd:  / 
Öryggi í sjúklinga í hættu vegna manneklu á Landspítala, segir framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala,Stjórnendur spítalans eru í stökustu vandræðum með að manna vaktir um helgina. Staðan er erfið á mörgum deildum, bæði vegna covid-veikinda hjá sjúklingum og starfsfólki. Sóttvarnalæknir segir að stjórnvöld verði að íhuga að herða aðgerðir áður en allt fer í óefni.

Hátt í þrjú þúsund covid-smit greindust innanlands fram til miðnættis í gær og eftir miðnætti greindust hátt í níu hundruð til viðbótar. Smitin hafa aldrei verið svo mörg.  Rúmlega þrjú hundruð starfsmenn Landspítala eru í einangrun með covid og segir í tilkynningu farsóttarnefndar spítalans að það horfi til algerra vandræða um  helgina við að manna vaktir.

Stór hluti sjúklinga á Vífilsstöðum með veiruna

„Það er mjög þungt á biðdeildinni okkar á Vífilsstöðum þar sem mjög stór hluti sjúklinganna er covid-smitaður. Það er þungt. Það er líka þungt á starfseiningum þar sem eru starfandi fáir sérfræðilæknar og þeir eru flestir veikir. Það er líka þungt á bráðamóttökunni þar sem er mikil ásókn og mjög margir sjúklingar sem koma til okkar og tiltölulega mikið brottfall í hópi starfsmanna líka. Og það er þungt á smitsjúkdómadeildinni hjá okkur þar sem starfsfólkið er búið að standa vaktina linnulaust í tvö ár. Þar eru margir veikir líka,“ segir Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala.

Stjórnvöld verði að leita lausna

Sóttvarnarlæknir segir að veikindi starfsmanna og vistmanna geri mönnun á hjúkrunarheimilum líka mjög erfiða.

„Þetta tvennt skapar mikið álag og mikið vandamál í rekstri þessara stofnana. Auðvitað þurfa menn að horfa á það hvernig eigi að leysa það. Það eru ekki margar leiðir. En stjórnvöld þurfa að skoða þetta mjög vel,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Óvíst er hvenær smtin ná hámarki en hámarkið á spítalanum er um hálfum mánuði seinna.

Öryggi sjúklinga í hættu

Myndir þú segja að sjúklingar væru í meiri hættu við þessar aðstæður en ella?

„Það er alltaf hætta á því já þegar starfsemin er undirmönnuð og óeðlilegt álag og kannski líka þegar það er að koma inn fólk sem er ekki vant að starfa á viðkomandi einingum. Þá eykur það alltaf hættuna á atvikum sjúklinga,“ segir Sigríður.

„Er kostur í stöðunni að fara út í harðari takmarkanir? Það þarf að skoða það. Ég veit að það er enginn vilji fyrir því almennt séð í samfélaginu. En auðvitað þurfa menn að skoða þetta. Hvernig ætla menn að leysa þetta áður en allt fer í óefni,“ segir Þórólfur.

Verður að vernda innviði

Þórólfur segist engu síður ekki endilega vera talsmaður herðinga.

„Ég held að við verðum sigla milli skers og báru í því að gera ekki of mikið en gera þó nægilega mikið til þess að vernda okkar innviði,“ segir Þórólfur.