Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Hlustar á ákall lögreglumanna og fundar um rafbyssur

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra ætlar að funda með landssambandi lögreglumanna og lögreglustjórum landsins á næstunni varðandi möguleikann á því að lögreglumenn fái rafbyssur í sína þjónustu. Verkefnum lögreglu hefur fjölgað nokkuð þar sem vopn koma við sögu.

„Þessi þróun er ógnvænleg og eitthvað sem við viljum ekki sjá halda áfram. Við viljum reyna að stemma stigu við þessu í okkar samfélagi. Við höfum búið við mikið öryggi hérna á Íslandi og við viljum tryggja það að borgararnir séu öruggir. Við þurfum á sama tíma að líta til þess að lögreglumenn geti brugðist við með viðeigandi hætti; varið sjálfa sig og borgarana,“ sagði Jón í Morgunútvarpinu á Rás tvö í morgun.

Hann segir að það þurfi að bregðast við því að aukin hætta fylgi nú oft útköllum en áður.

„Lögreglufólkið okkar er fólk eins og við hér og á sínar fjölskyldur. Það er eðlilegt að það gæti ákveðins ótta meðal lögreglumanna þegar er verið að fara í svona erfið útköll. Við erum að skoða það hvort getur verið eðlilegt að stíga þá það milliskref að taka upp þessi rafvopn, sem mikil reynsla er komin á víða um heim. Meðal annars hjá nágrannaþjóðum okkar.“

Fyrir utan piparúða er kylfa næsta tæki sem lögreglumenn geta beitt, en meiri hætta er á að þar hljótist slys af.

„Það gefur auga leið að slysin verða miklu frekar í átökum, ef menn þurfa að vera að takast á og beita kannski kylfum og slíku. Þá getur það haft í för með sér líkamstjón. Í þessu tilfelli þá er hægt að forðast slík átök.“

Jón segist hlusta á það ákall sem komið hefur úr röðum lögreglumanna að bregðast við.

„Ég heyri það og hlusta á það. Ég ætla að funda með þeim og í framhaldi af því þá munum við taka ákvörðun hvort við stígum þetta skref. Og þá munum við gera það samkvæmt mjög ströngum reglum,“ sagði Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra í Morgunútvarpinu á Rás tvö í morgun.

Hlusta má á viðtalið í spilaranum hér að ofan, þar sem einnig er rætt við ráðherra um breytingar á lögfræðiaðstoð hælisleitenda og fjármagni til lögreglu.