Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Heimsglugginn: Mikil áhrif Jenis av Rana í Færeyjum

Mynd: Kringvarp / Kringvarp
Jenis av Rana og Miðflokkur hans hafa gífurleg áhrif í færeyskum stjórnmálum þó að flokkurinn sé ekki stór segir Hjálmar Árnason, formaður Færeysk-íslenska verslunarráðsins. Bogi Ágústsson ræddi við hann í Heimsglugga vikunnar á Morgunvakt Rásar-1.

Leyfilegt að skilyrða úthlutanir ESB

Björn Þór Sigbjörnsson og Bogi Ágústsson ræddu fyrst um dóm Evrópudómstólsins sem staðfestir að leyfilegt sé skilyrða styrki úr bjargráðasjóði ESB vegna COVID. Það var samþykkt á sínum tíma að lönd yrðu að virða grundvallarreglur sambandsins til að fá þessa styrki. Þessu er stefnt gegn Ungverjalandi og Póllandi, sem ekki eru talin uppfylla ekki  lýðræðislegar skyldur sem fylgi Evópusambandsaðild. Leiðtogar landanna saka Evrópusambandið um kúgunartilburði og pólitískan þrýsting.

Færeysk stjórnmál

Meginefni þáttarins var umfjöllun um stjórnmál í Færeyjum og rætt var við Hjálmar Árnason, sem er formaður Færeysk-íslenska verslunarráðsins. Hann á að hluta ættir að rekja til Færeyja, dvaldi hjá ættingjum sem barn og hefur haldið góðum tengslum og fylgist vel með. Hjálmar settist við Heimsgluggann og skýrði út færeysk stjórnmál. Fyrir jól munaði minnstu að færeyska stjórnin félli vegna deilna um frumvarp um réttindi samkynhneigðra mæðra og nú eru deilur um endurnýjun eftirlitsratsjár Atlantshafsbandalagsins.

Formaður Fólkaflokksins víkur úr stjórninni

Eftir samtal Hjálmars og Boga bárust fréttir af því að lögmaður Færeyja, Bárður á Steig Nielsen, hefði vikið Jørgen Niclasen, fjármálaráðherra, úr stjórninni eftir að það spurðist að Niclasen hefði verið staðinn að því að aka undir áhrifum í síðustu viku.