Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Fordæma rannsókn á hendur fjölmiðlafólki

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Stjórn Samtaka kvenna um Nýja stjórnarskrá fordæmir lögreglurannsókn gegn fjórum blaðamönnum. Sömuleiðis styður stjórnin fjöldafundi vegna málsins sem haldnir verða samtímis í Reykjavík og á Akureyri næstkomandi laugardag.

Stjórnin lýsir eindregnum stuðningi við fjölmiðlafólkið Þórð Snæ Júlíusson, Aðalstein Kjartansson, Arnar Þór Ingólfsson og Þóru Arnórsdóttur.

Í tilkynningu segir að aðgerðir lögreglu séu með öllu tilhæfulausar þar sem skýrt sé að ekki sé hægt að beita þeim ákvæðum hegningarlaga sem lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra byggi rannsókn sína á kom þegar „háttsemin er réttlætanleg með vísan til almanna- eða einkahagsmuna.“

Það sé yfir allan vafa hafið að þær upplýsingar sem fram komu í umfjöllun fjölmiðlamannana um vinnubrögð svokallaðrar „skæruliðadeildar“ Samherja vörðuðu slíka hagsmuni.

Umfjöllunin hafi snert háttsemi eins áhrifamesta fyrirtæki landsins Eins sé það almenn regla í lýðræðisríkjum að fjölmiðlafólk njóti sérstakrar verndar þegar kemur að hagnýtingu upplýsinga, hvaðan sem þær komi.

Grafalvarlegt sé að ráðast að blaðafólki fyrir að greina frá mikilvægum upplýsingum. „Frjáls fjölmiðlun er einn af hornsteinum lýðræðisins, og þegar ráðist er að þeim er það árás á allan almenning.“

Stjórn samtaka kvenna um nýja stjórnarskrá áréttar að í nýrri stjórnarskrá sé að finna ákvæði um fjölmiðlafrelsi, upplýsingarétt og auðlindir í þjóðareign.

Undir yfirlýsinguna rita þær Ósk Elfarsdóttir, forman samtakanna, Tótla I. Sæmundsdóttir, Libia Castro, Maria Viktoria Hill, Elín Ýr Arnar Hafdísardóttir, Bryndís Friðgeirsdóttir, Árný Elínborg og Katrín Oddsdóttir.