Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Tragíkómedía í orðsins fyllstu merkingu

Mynd: Jónatan Grétarsson / Tjarnarbíó

Tragíkómedía í orðsins fyllstu merkingu

16.02.2022 - 13:20

Höfundar

„Þegar leikstjóranum Guðmundi Inga Þorvaldssyni tekst að búa til heim sem er jafn skýr og þessi en um leið svo marglaga og frumlegur, þá skapast náttúruleg togstreita á milli elementa í sýningunni og hún lyftist á eitthvað æðra plan,“ segir Nína Hjálmarsdóttir leikhúsrýnir Víðsjár sem rýndi í Blóðugu Kanínuna sem sýnd er í Tjarnarbíó.

Nína Hjálmarsdóttir skrifar:

Það var hátíðarstemming í Tjarnarbíó síðastliðið föstudagskvöld á frumsýningu leikhópsins Fimbulvetur á verki Elísabetar Jökulsdóttur, Blóðuga Kanínan. Á sviðinu er ung kona, Dísa, leikin af Þóru Karítas Árnadóttur, að gera veitingastaðinn sinn tilbúinn fyrir gesti, á meðan fimm fígúrur standa aftast og horfa á hana, og maður leikur á píanó vinstra megin. Það tekur ekki langan tíma að átta sig á því að hér er ekki allt með felldu, að það er eitthvað óþægilegt við að leyfa sér að hlæja að því hvernig Dísa þrífur borðin aftur og aftur. Taktmælirinn slær sífellt hærra og hraðar, virkar eins og upplifun af hljóðum í miðju kvíðakasti, og minnir okkur á dauðann. Við erum stödd í leikhúsi súrrealismans, í ógnvekjandi sirkus, en hér eru samt mörg lög sem hægt er að fletta ofan af, eða frekar finna fyrir, - hér er þykkur og safaríkur heimur umvafinn þungum og marglaga texta.

Þetta leikhús gerir okkur þetta ekki auðvelt. Það er ekki að sykurhúða neitt eða tala í kringum hlutina. Þetta leikhús, þessi texti, fer með okkur beint í maga hvalsins, í rót okkar innsta ótta, í ljótustu verk manneskjunnar. Texti Elísabetar er svo krefjandi að maður þarf að hafa sig allan við að meðtaka hann. Hér er ekki hægt að vera passívur áhorfandi og slaka á í sætinu. Sagan hefst í stríði og við sjáum söguhetjuna okkar, Dísu, þeytast um að leggja á borðin og gera fínt, á meðan sprengjurnar dynja á henni. Fókusinn þrengist síðan inn á við, við þurfum ekki að heyra sprengjurnar lengur því við vitum af þeim, við vitum að þær eru alltaf þarna. Hann er þarna líka. Við sjáum hann samt ekki en hann situr við öll borðin, á öllum stólunum, segir Dísa við Trúðinn og Barnið. Það kemur í ljós að þau, ásamt Hetjunni, Fáráðlingnum, Skrímslinu, Píslarvottinum og Tárinu eru líka Dísa.

Textinn er svo fagur, vondur og hispurslaus að hann dynur á okkur áhorfendunum eins og sprengja. Tilfinningarnar eru í reipitogi, þær hrífast með og fjarlægast til skiptis. Hér er dansað á línu hláturs og gráts, því persónur eins og Fáráðlingurinn í túlkun Aðalbjargar Árnadóttur og Hetjan sem leikin er af Ólafíu Hrönn Jónsdóttur,- eru svo brilljant, svo óhugnalega fyndnar, um leið og þær eru svo harmþrungnar að maður fær illt í hjartað. Undir öllu þessu spilar Borgar Ao, Sirkusstjórinn og maðurinn sem ávarpar áhorfendur, lifandi tónlist sem er írónísk og þykkir stemminguna hverju sinni, hvort sem hann spilar drungalega hryllingsmyndatóna, sexí djass eða plokkar innyfli píanósins eins og textinn plokkar hjartastrengi okkar. Nei, þetta er ekki auðvelt, þetta er ögrandi og ruglingslegt, spennandi og erfitt. Það er engin línuleg narratíva rétt eins og sálarsár gróa ekki í þægilegri tímalínu. Við erum í trámanu. Við erum að upplifa trámað aftur með Dísu því það fer aldrei. Hún er enn þá sama barnið og hún var þegar það gerðist. Barn, sem datt ofan í holu og kemst ekki upp, sem er löngu orðið þreytt og gamalt og ætti heima á ellibarnaheimili. Sprengjurnar þegja aldrei.

Verkið er mjög persónulegt og skapað í kringum margklofin sár innra með höfundinum, heimurinn er kaótískur og er sviðsmynd Þórunnar Maríu Jónsdóttur ætlað að endurspegla það sem hún gerir ágætlega. Hins vegar er augljóst að sviðsetningin myndi njóta sín betur á stærra sviði og hefði mátt reyna að miða betur við rýmið. Hljóðfæraleikurinn hefði þannig líka fengið veigameiri sess. Sýningin er aðeins of löng og hefði verið ráð að hnitmiða og stytta. Búningarnir eru spennandi og skerpa erkitýpurnar í anda Commedia dell’arte. Þeir eru einkennandi fyrir hverja persónu, en um leið frumlegir og alltaf pínu óþægilegir. Það er eitthvað off hérna, eitthvað á ská,- eins og í heiminum sjálfum. Það er mjög fallegt hvernig flíkurnar teygðu sig inn í sviðsetninguna, í samhljóm við sviðshreyfingar Völu Ómarsdóttur sem sköpuðu lifandi myndlíkingar, eins og þegar Dísa var að draga allar persónurnar á bak sér. Lýsing Friðþjófs Þorsteinssonar er líka prýðileg og ýtir vel undir myrka sirkuskabarett stemminguna. Leikurinn er misgóður en Ólafía Hrönn ber af. Þegar hún gengur fremst á sviðið, frá fyrsta augnabliki, þá föllum við að fótum hennar og erum gjörsamlega háð. Leikhæfileikar hennar njóta sín í súrrealismanum þar sem aldrei er hægt að vita hvað gerist næst. Í senunum þar sem hún er í hlutverki Társins, eins konar amatör völva sem huggar og sefar um stund, nær hún magnaðri tengingu við salinn með því að vera fullkomlega einlæg í svo kátlegu atriði. Aðalbjörg Árnadóttir er líka mjög eftirminnileg í hlutverki freka Fáraðlingsins og Ævar Þór Benediktsson sýnir núanseraða túlkun á hlutverki Trúðsins sem reynir að vera fyndinn en er að missa tökin.

Myndlíkingarnar í sviðsetningunni og dramatúrgíunni skapa djúsí heim. Án þess að segja of mikið þá er ímyndaða rýmið sem er miðlað til okkar, það rými er trámað sjálft. Hér er ekki hægt að loka og fara, lykillinn er týndur. Hér er hægt að vera og spóla í sama farinu, aftur og aftur, því við erum föst og komumst ekkert. Verkið er stútfullt af táknum, það er hlaðborð af merkingum fyrir áhorfendur að túlka, og má þar nefna eftirminnilegt atriði um hvítan dúk með dúfum. Einnig verður að nefna sprenghlægilega blóma- og fiðrildasenu, en þeir karakterar eiga skilið sitt eigið leikrit. Fjórði veggurinn er ítrekað brotinn og notkunin á framandgervingu skapar samband við áhorfendur sem ruglar okkur í ríminu á besta mögulega hátt.

Þegar leikstjóranum, Guðmundi Inga Þorvaldssyni, tekst að búa til heim sem er jafn skýr og þessi en um leið svo marglaga og frumlegur, þá skapast náttúruleg togstreita á milli elementa í sýningunni og hún lyftist á eitthvað æðra plan. Hún nær að halda áhorfandanum á þessum “sweet spot”, sem einkennist á sama tíma af melankólíu og trylltri hamingju, þar sem við iðum í skinninu en skiljum ekki af hverju, af því við erum komin handan merkingar, beint í gin performansskrímslisins. Og það eina sem er hægt að bera þetta saman við er tilfinningin þegar man fattar að man er ástfangin, sælan umlykur man og man nýtur þess að sveima um í skilningsleysi, gjörsamlega týnd í augnablikinu. Það er það sem gott leikhús getur gert, góður performans getur gert, komið okkur handan skilnings og þannig nær þessi máttur, þessi performantík, rómantík, að snerta við einhverju djúpu innra með okkur, einhverju sem er líkamlegt, eða eins og Dísa segir; ,,Líkaminn man”. Leikstjórinn opnar þannig stórkostlegan texta höfundarins, og glæðir hann lífi á sviðinu. Áhorfendur finna fyrir nístandi sorginni, finna fyrir áfallinu sem fæddi textann, og húmornum sem viðbragði, finna fyrir öllu þessu hyldýpi með öllum skynfærunum. Það er ekki oft sem man veltist um af hlátri en þarf að halda inni tárunum á sama tíma. Verkið er því tragíkómedía í orðsins fyllstu merkingu.“