Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

„Lögreglan er bara að vinna sína vinnu“

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
„Ég hef í sjálfu sér enga skoðun á því. Ég held að lögreglan sé bara að vinna sína vinnu skv. þeim lögum sem um það gilda,“ segir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra. Fréttastofa RÚV innti hann eftir skoðun á því að fjórir blaðamenn séu með réttarstöðu sakbornings í rannsókn lögreglunnar á meintum brotum gegn friðhelgi einkalífs.

Fjármálaráðherra furðar sig á því í færslu sem hann birtir á Facebook í gærkvöldi  hvernig það geti talist alvarlegt að Lögreglan á Norðurlandi eystra óski eftir skýrslutöku af fjórum blaðamönnum, sem fengið hafa réttarstöðu sakbornings í lögreglurannsókn. Fjármálaráðherra og dómsmálaráðherra segja að ekki hafi enn komið fram að hverju rannsóknin lýtur.

Skýrslutaka Lögreglunnar á Norðurlandi eystra yfir fjórum blaðamönnum hefst á mánudag.

Bæði Blaðamannafélagið og Félag fréttamanna hafa gert alvarlegar athugasemdir við að blaðamennirnir séu með réttarstöðu sakbornings. Fréttastofa RÚV spurði Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í gær, um viðbrögð við þessu.

„Ja, ég hef í sjálfu sér enga skoðun á því. Ég held að lögreglan sé bara að vinna sína vinnu skv. þeim lögum sem um það gilda,“ sagði Jón.

Kom þér á óvart að heyra af þessu?

„Í sjálfu sér ekki sérstaklega, ekki þannig. Ég þekki ekki til þess máls þannig að eitt eða annað hafi komið mér á óvart í þeim efnum,“ sagði Jón.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra birti færslu á Facebook í gærkvöldi þar sem hann spyr hvort fjölmiðlamenn séu of góðir til að mæta og svara spurningum lögreglu eins og almennir borgarar. Þá skrifari Bjarni að engar fréttir hafi verið fluttar af því hvað það er sem lögreglan kunni að hafa undir höndum sem gefi tilefni til rannsóknar. Þá spyr ráðherrann hvernig það geti talist alvarlegt mál að lögregla óski eftir því að þeir gefi skýrslu. Hann bendir á að fjölmiðlamennirnir geti neitað að svara spurningum lögreglunnar og veltir fyrir sér hvort þurfi að hafa uppi stóryrði áður en lögreglan ber upp fyrstu spurninguna.