Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Lögregla í Ottawa setur mótmælendum afarkosti

16.02.2022 - 23:08
epa09754109 An anti obligatory vaccin supporter near Parliament hill as truckers continue to protest in Ottawa, Canada, 13 February 2022. Truckers continue their protest against the mandate by the Canadian government for mandatory vaccines against COVID-19 to be able to return to Canada. A state of emergency was declared in the city of Ottawa on 06 February 2022 and policemen from Ottawa city, Ontario, and the Federal Royal Canadian Mounted Police (RCMP) are deployed.  EPA-EFE/VALERIE BLUM
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Lögreglan í Ottawa í Kanada setti mótmælendum í borginni afarkosti í kvöld, annað hvort láti þeir af mótmælum eða þeir verði handteknir eða sektaðir. Fjölmenn mótmæli gegn sóttvarnaaðgerðum hafa verið í borginni síðustu þrjár vikur en þar fara fremstir í flokki vörubílstjórar sem hafa lokað götum í miðborginni og Ambassador-brúnni, einni fjölförnustu leið yfir landamæri Bandaríkjanna og Kanada.

Í tilkynningu lögreglu til mótmælenda segir að nú verði tekið á mótmælunum af hörku. Mótmælendur verði að yfirgefa miðborgina strax, annars verði þeir handteknir, sektaðir og vörubílar þeirra gerði upptækir. Þá gætu þeir sem verði ákærðir og síðar dæmdir fyrir að taka þátt í mótmælunum átt á hættu að komast ekki aftur til Bandaríkjanna, en flestir vörubílstjóranna flytja vörur milli Kanada og Bandaríkjanna. 

Dómstóll í Kanada setti lögbann á mótmælin um helgina og heimilaði lögreglu að leysa þau upp en mótmælendur hafa ekki farið að fyrirmælum yfirvalda. Mótmælin beinast gegn sóttvarnareglum stjórnvalda og þá einna helst bólusetningarskyldu sem gildir um þá flutningabílstjóra sem fara yfir landamærin. Hreyfingin sem stendur að mótmælunum kallar sig Frelsislestina  en sambærileg mótmæli hafa sprottið upp í Frakklandi, Nýja-Sjálandi, Ástralíu og Bandaríkjunum.