Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Heimila fjögurra daga vinnuviku með óbreyttum vinnutíma

16.02.2022 - 05:53
epa09747609 Belgium's Prime Minister Alexander De Croo Health minister Frank Vandenbroucke (L) give a press conference after a Codeco committee with regional governments to discuss restrictive coronavirus measures in Brussels, Belgium, 11 February 2022. Like in many other countries in Europe, as the fourth wave of covid is slowing down, Belgian Government plans to ease coronavirus measures in the next week.  EPA-EFE/OLIVIER HOSLET
Alexander De Croo, forsætisráðherra Belgíu (t.h.) ásamt heilbrigðisráðherranum Frank Vandenbroucke Mynd: EPA-EFE - EPA
Stjórnvöld í Belgíu boða breytingar á vinnulöggjöf landsins sem veita launafólki rétt til að fara fram á fjögurra daga vinnuviku. Vinnutíminn styttist þó ekki að sama skapi,heldur heimila lögin fólki að vinna sína 38 tíma á fjórum dögum í stað fimm, og launin haldast óbreytt að sama skapi.

Alexander De Croo, forsætisráðherra Belgíu, tilkynnti breytingarnar í gær og sagði stjórn sína hafa tekið vinnulöggjöfina til gagngerrar endurskoðunar að fenginni reynslu undanfarinna tveggja ára. „COVID-tíminn hefur neytt okkur til að vinna sveigjanlegri vinnutíma -- og vinnumarkaðurinn verður að laga sig að því,“ sagði forsætisráðherrann á fréttafundi eftir langan fund við ríkisstjórnarborðið um hina nýju löggjöf.

Ákvæði um sveigjanlegan vinnutíma gefa starfsfólki einnig möguleika á að semja við vinnuveitendur sína um að vinna fleiri tíma eina vikuna og fækka þeim í þeirri næstu í staðinn.

Fjögurra daga vikan möguleiki en ekki skýlaus réttur

En þótt löggjöfin heimili slíkan sveigjanleika skikkar hún vinnuveitendur ekki til að verða við óskum starfsfólksins. Sveigjanleikinn verður því að líkindum meiri í stærri fyrirtækjum en smærri, þar sem þau hafa meiri möguleika á að dreifa álaginu.

Löggjöfin tekur heldur ekki gildi í einum grænum, enda þurfa hvort tveggja verkalýðshreyfingin og ráðgjafaráð ríkisstjórnarinnar að fara i saumana á henni áður en hún verður lögð fyrir þingið, sem tekur endanlega ákvörðun um hvort hún verður að veruleika.

Í Belgíu jafngilda 38 tímar á viku 100 prósent starfi, en meðalvinnuvikan er þó eilítið styttri, eða 35,5 tímar. Í Frakklandi vinnur fólk að meðaltali 36.5 tíma á viku en 38,7 í Bandaríkjunum.