
Yfir 200 verkefni hjá björgunarsveitum í dag
Karen Lárusdóttir, verkefnastjóri hjá Landsbjörg, segir að helst hafi þurft að aðstoða ökumenn á bílum sem festust í sköflum og losa um bíla sem hreinlega voru skildir eftir.
Hún segir að það hafi bjargað miklu að blotna tók í snjónum þannig að komist varð hjá þeim vandræðum sem fylgt hefðu skafrenningi. Um það bil 90 björgunarsveitarliðar voru á vaktinni í dag og vakt verður áfram í nótt að sögn Karenar.
Gul veðurviðvörun gildir fram eftir nóttu á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa, Breiðafirði, Suðausturlandi og Miðhálendi. Það blæs af suðaustan, fimmtán til tuttugu og metrar á sekúndu.
Víða hefur verið þung færð á höfuðborgarsvæðinu og ófært á fjallvegum suðvestanlands. Fylgdarakstur var milli Hvalfjarðarganga og Esjumela í rúma klukkustund í dag.
Veginum um Skarðsströnd á Vesturlandi hefur verið lokað vegna snjóflóðs sem féll þar í kvöld. Talin er hætta á að fleiri snjóflóð gætu fallið. Ekki er vitað hvort flóðið olli skemmdum eða hvenær vegurinn verður opnaður á ný.
Vegirnir um Hellisheiði, Þrengsli og Mosfellsheiði eru lokaðir. Þar er óvissustig í gildi til klukkan 8 í fyrramálið. Vegurinn um Kjalarnes er einnig lokaður. Honum hefur ítrekað verið lokað síðustu vikur.