Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Frá áfengiskaupum dómara til skrifa um skæruliðadeild

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd
Ákvörðun Lögreglunnar á Norðurlandi eystra að kalla fjóra blaða- og fréttamenn til yfirheyrslu með réttarstöðu sakbornings hefur vakið umræður um hvað fjölmiðlar mega og mega ekki fjalla um. Lengi hefur verið tekist á um það hérlendis. Til dæmis neitaði Arnar Páll Hauksson, þáverandi fréttamaður RÚV, að svara spurningum lögmanns forseta Hæstaréttar um heimildarmann sinn þegar hann kom upp um stórfelld áfengiskaup forsetans. Það mál var fyrirmynd áfengiskaupa ráðamanna í þáttaröðinni Verbúðin.

Arnar Páll var krafinn svara um heimildarmenn sína árið 1989 en borgardómur dæmdi að hann þyrfti ekki að upplýsa um heimildarmann sinn. Nokkrum árum síðar krafði lögreglan Agnesi Bragadóttur, þáverandi blaðamann Morgunblaðsins, um upplýsingar um sína heimildarmenn vegna skrifa hennar um endalok Sambands íslenskra samvinnufélaga. Héraðsdómur Reykjavíkur sagði henni skylt að svara. Þann úrskurð nam Hæstiréttur úr gildi í janúar 1996.

Fjórir kallaðir til yfirheyrslu

Í gær bárust fréttir af því að fjórir blaða- og fréttamenn hefðu verið kallaðir til yfirheyrslu með réttarstöðu sakbornings hjá Lögreglunni á Norðurlandi eystra. 

Eftir því sem komið hefur fram hjá þremur blaðamönnum var þeim tjáð að þeir hefðu réttarstöðu sakbornings vegna rannsóknar á meintum brotum þeirra gegn friðhelgi einkalífsins með umfjöllun sinni um „skæruliðadeild“ Samherja. Umfjöllunin byggði á gögnum sem komin eru frá starfsmanni Samherja sem kærði stuld á síma sínum, þar sem nálgast mátti gögnin.

Enn er margt óljóst um hvers vegna blaðamennirnir eru kallaðir til yfirheyrslu. Lögreglan á Norðurlandi eystra sagði í tilkynningu síðdegis að brot gegn friðhelgi einkalífs væri til rannsóknar og að málið sé í hefðbundnum farvegi. Liður í því sé að taka skýrslur af aðilum og vitnum til að upplýsa málið. Embættið segir að frekari upplýsingar verði ekki veittar vegna rannsóknarhagsmuna.

Blaðamennirnir hafa réttarstöðu sakbornings í málinu. Þar með er þeim ekki skylt að tjá sig um það sem þeir eru spurðir út í þegar tekin er skýrsla af þeim. Vitni má krefja um svör. 

Hafa mátt byggja fréttir á viðkvæmum gögnum

Hæstiréttur hefur tvívegis dæmt að blaðamenn megi byggja fréttir á viðkvæmum gögnum. Hæstiréttur dæmdi í bæði skiptin að fjölmiðlar mættu byggja fréttaflutning á gögnum sem þeir fengju í óþökk eigenda þeirra ef umfjöllunin væri hluti af þjóðfélagsumræðu eða sneri að málum sem hefði þýðingu fyrir almenning að upplýst væri um. Dómarnir snúa meðal annars að birtingu frétta sem byggðu á gögnum innan úr banka og úr tölvupóstum sem hafði verið komið til fjölmiðla. Jafnframt hefur Hæstiréttur dæmt um rétt fjölmiðla til að nafngreina ekki eða upplýsa um nokkuð það sem kemur upp um nafn heimildarmanns síns.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjölmiðlafólkið sem hefur verið kallað til yfirheyrslu.

Í samskiptum lögreglunnar við blaðamennina sem um ræðir mun hafa verið vísað til tveggja greina í almennum hegningarlögum. Sú fyrri kveður á um sektir eða allt að árs fangelsi ef einstaklingur „brýtur gegn friðhelgi einkalífs annars með því að hnýsast í, útbúa, afla, afrita, sýna, skýra frá, birta eða dreifa í heimildarleysi skjölum, gögnum, myndefni, upplýsingum eða sambærilegu efni um einkamálefni viðkomandi, hvort heldur sem er á stafrænu eða hliðrænu formi“. Seinni greinin segir að hver „sem í heimildarleysi verður sér úti um aðgang að gögnum eða forritum annarra sem geymd eru á tölvutæku formi“ sæti sektum eða allt að eins árs fangelsi. Í báðum greinum sem vísað er til er þó þann fyrirvara að finna að þær eigi ekki við „þegar háttsemin er réttlætanleg með vísan til almanna- eða einkahagsmuna“. Þá vaknar spurningin: Á það við í þessum tilfellum? Vísbendingar um það má lesa úr dómum.

default
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Lögreglustöðin á Akureyri.

Tekist á um fréttaflutning og vernd heimildarmanna

Ef málið snýst um að blaðamenn hafi skrifað fréttir upp úr gögnunum verður að hafa þrjá dóma Hæstaréttar til hliðsjónar. 

Sá nýlegasti er frá árinu 2019 og snýr að lögbanni sem Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu setti á fréttaflutning Stundarinnar að beiðni Glitnis HoldCo tólf dögum fyrir kosningar 2017. Þá hafði Stundin fjallað um fjárfestingar Bjarna Benediktssonar, þáverandi forsætisráðherra, og fólks sem honum tengdist fyrir hrun. Greinarnar byggðu á gögnum úr Glitni sem voru háð bankaleynd. Bankinn varð gjaldþrota í hruninu og Glitnir HoldCo sá um uppgjör þrotabúsins.

Dómurinn í lögbannsmálinu snýr að tveimur efnum, annars vegar rétti fjölmiðla til að vinna og birta fréttir á grundvelli gagna sem þeim berast og hins vegar um vernd heimildarmanna.

Lögmenn Glitnis Holdco stefndu blaðamönnum í dómsal og spurðu þá út í heimildarmenn þeirra. Þeir neituðu að svara og héraðsdómari sagði að þeim væri ekki skylt að gera það. Það var staðfest á efri dómstigum. 

„Forsenda fyrir því að fjölmiðlar geti rækt hlutverk sitt er að þeir geti aflað upplýsinga um mál sem hafa þýðingu fyrir almenning og miðlað þeim án afskipta annarra,“ segir í dómi Hæstaréttar í lögbannsmálinu. „Einn þáttur í þessu sjálfstæði fjölmiðla er að þeir geti tekið við slíkum upplýsingum í trúnaði án þess að þurfa að gera grein fyrir hvaðan eða frá hverjum þær stafi...“ Hæstiréttur vísaði einnig til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu um að heimildaverndinni nái ekki aðeins til þess að blaðamaður þurfi ekki að upplýsa nákvæmlega hver heimildarmaðurinn her. Hún feli líka í sér að blaðamanni sé ekki skylt að veita upplýsingar sem geti leitt til þess að upp um heimildarmanninn komist. Hæstiréttur kvað einnig upp úr um að heimildarmaður þyrfti að veita blaðamanni heimild áður en hann gæti veitt upplýsingar um sig.

Bankaleynd kom ekki í veg fyrir fréttaflutning

Glitnir HoldCo vildi einnig stöðva umfjöllun sem byggðist á gögnum sem urðu til í bankanum og féllu undir bankaleynd. Hæstiréttur sagði tvenn sjónarmið og réttindi vera til hliðsjónar. „Við það mat vegast annars vegar á réttur stefndu sem fjölmiðla til að gera almenningi grein fyrir þeim upplýsingum sem fram koma í hinum umþrættu gögnum og hins vegar réttur þeirra sem gögnin fjalla um til að njóta þeirrar leyndar sem kveðið er á um í lögum, stjórnarskrá og Mannréttindasáttmála Evrópu.“ Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að Stundinni og Reykjavík media sem hún var í samstarfi við hefði verið heimilt að vinna og birta fréttir á grundvelli gagna sem heyrt höfðu undir bankaleynd. Vísaði Hæstiréttur þar til stöðu Bjarna sem forsætisráðherra, kosninga sem stóðu fyrir dyrum og áhrifa hrunsins á íslenskt samfélag. „Í ljósi þeirra stórfelldu almennu áhrifa sem bankahrunið hafði á íslenskt samfélag er og eðlilegt að slíkt uppgjör fari fram á grundvelli opinberrar fréttaumfjöllunar og þeirrar almennu umræðu sem henni að jafnaði fylgir. Verður að líta svo á að umfjöllun stefndu um viðskipti þáverandi forsætisráðherra sé liður í því uppgjöri og eigi sem slík erindi við almenning.“ Einnig mátti fjalla um málefni annarra sem komu við sögu því mál þeirra voru samofin málefnum Bjarna.

Mynd með færslu
Ritstjórar og lögmenn Stundarinnar og Reykjavík media við aðalmeðferð lögbannsmálsins. Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson - RÚV
Tekist var á um fréttaflutning og heimildarvernd Stundarinnar á þremur dómstigum.

Tekist á um tölvupósta og einkamál í tölvupóstamálinu

Tölvupóstamálið var í hámæli um miðjan fyrsta áratug aldarinnar. Þá hóf Fréttablaðið birtingu á fréttum sem byggðu á tölvupóstum sem blaðið hafði fengið í hendurnar. Þar kom fram hvernig málsmetandi menn sem tengdust Sjálfstæðisflokknum höfðu komið við sögu í aðdraganda þess sem varð Baugsmálið, eitt stærsta sakamál aldarinnar. Eigandi tölvupóstanna fékk samþykkt lögbann á fréttaflutning Fréttablaðsins en tapaði dómsmálum á báðum dómstigum, í héraði og Hæstarétti. 

„Skrif blaðsins höfðu að geyma efni, sem átti erindi til almennings og varðaði mál, sem miklar deilur höfðu staðið um í þjóðfélaginu,“ sagði í dómi Hæstaréttar. „Þótt jafnframt hafi verið greint í umfjöllun blaðsins frá fjárhagsmálefnum áfrýjanda voru þau svo samfléttuð fréttaefninu í heild að ekki varð greint á milli. Verður fallist á með stefnda að ekki hafi verið gengið nær einkalífi áfrýjanda en óhjákvæmilegt var í opinberri umræðu um málefni, sem varðaði almenning. Að öllu þessu virtu verður lagt til grundvallar að nægar ástæður hafi verið fyrir hendi, sem réttlættu birtingu þessara skrifa blaðsins.“

Hæstiréttur dæmdi þarna að byggja mætti umfjöllun á viðkvæmum gögnum og fjalla um þar um einkamálefni ef nægar ástæður voru til. Ári síðar felldi Hæstiréttur annan dóm um hvenær ekki mætti vinna og birta fréttir með slíkum hætti. Það var í máli gegn DV vegna frétta sem byggðu á sömu tölvupóstum. DV greindi frá ástarmálum tveggja einstaklinga sem birtust í tölvupóstunum. Hæstiréttur sagði að stjórnarskráin veitti fólki ríka vernd til einkalífs og að ekki yrði séð hvaða erindi upplýsingar um ástarmál fólks ættu til almennings „enda var hvorki leitast við í fréttaflutningi DV 26. september 2005 að skýra gildi þeirra fyrir málefnið, sem til umræðu var í þjóðfélaginu, né hafa aðaláfrýjendur fært fyrir því haldbærar skýringar í máli þessu“.

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Hæstiréttur hefur kveðið upp nokkra dóma um réttindi og skyldur blaðamanna.

Fréttastjóri þurfti ekki að svara lögreglu

Ef ákvörðun lögreglu að boða blaðamenn til yfirheyrslu snýr ekki að skrifum þeirra heldur að því hvernig blaðamennirnir fengu gögnin sem þeir notuðu má vísa til tveggja dóma. Annars vegar er umfjöllunin hér að ofan um tilraunir Glitnis HoldCo að fá blaðamenn til að upplýsa um heimildarmenn sína. Hins vegar er dómur Hæstaréttar frá árinu 2014 sem snýr að lekamálinu, þegar lögregla reyndi að upplýsa hver hefði lekið upplýsingum til fjölmiðla úr innanríkisráðuneytinu. Síðar kom í ljós að það var annar aðstoðarmanna innanríkisráðherra sem að lokum fékk skilorðsbundinn átta mánaða dóm.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakaði málið og kallaði fréttastjóra mbl.is til yfirheyrslu sem neitaði að upplýsa hver hefði ritað frétt sem byggt hefði á þeim upplýsingum sem lágu undir í lekamálinu. Það snerist um upplýsingar um mál einstakra hælisleitenda.  Lögreglan krafðist þess þá að fréttastjórinn svaraði spurningum sínum fyrir dómi, en hann neitaði og bar fyrir sig ákvæði sakamálalaga um að sér væri, sem ábyrgðarmanni vefsins, óheimilt að svara því án leyfis hver hefði ritað greinina. Hæstiréttur tiltók að dómstóll gæti þrátt fyrir þetta skyldað vitni til að svara spurningum að uppfylltum skilyrðum um að vitnisburðurinn gæti ráðið úrslitum um niðurstöðu sakamáls og hvort ríkari hagsmunir leiddu af því að halda trúnað eða greina frá upplýsingunum. „Forsenda fyrir því að fjölmiðlar geti rækt hlutverk sitt er að þeir geti aflað upplýsinga um mál sem hafa þýðingu fyrir almenning og miðlað þeim án afskipta annarra,“ sagði Hæstiréttur. „Málefni þeirra sem leitað hafa eftir hæli sem flóttamenn hér á landi hafa að vonum verið mikið rædd á opinberum vettvangi. Því er eðlilegt að um þau sé fjallað í fjölmiðlum og sú umfjöllun sé eftir atvikum byggð á frásögn manna sem ekki vilja láta nafns síns getið. Að teknu tilliti til þessa verður ekki talið að sóknaraðili hafi sýnt fram á að hagsmunir varnaraðila af því að halda trúnað við höfund og heimildarmann umræddrar fréttar eigi að víkja fyrir þeim hagsmunum að henni skuli gert að svara spurningum sóknaraðila í því skyni að upplýsa til fulls það mál sem til rannsóknar er.“