Mynd úr safni. Mynd:

Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.
Eigandi Arnarlax vill eignast meirihluta í Arctic Fish
15.02.2022 - 15:24
Norska laxeldisfyrirtækið SalMar hefur gert tilboð í laxeldisfyrirtækið NTS fyrir 1,5 milljarð evra, en NTS á meira en helming fyrirtækisins Arctic Fish.
Frá þessu er greint á vefnum SalmonBusiness.com.
NTS á 70% hlut í Norway Royal Salmon, sem á 51% hlut í Arctic Fish. SalMar á fyrir 51% hlut í Arnarlaxi, sem starfrækir fiskeldi á Vestfjörðum. Arctic Fish starfrækir einnig fiskeldiskvíar á Vestfjörðum, nánar tiltekið í Patreksfirði, Tálknafirði og Dýrafirði.
Eigendur Salmar eru sagðir horfa til hagræðingar og lægri framleiðslukostnaðar. Þá komi til greina samrekstur fiskeldisfyrirtækja bæði á Íslandi og í Noregi.
Eigendur allt að 50,1% hlutafjár í NTS hafa samþykkt að taka tilboðinu, að því gefnu að kaupendur samþykki fyrirvara þeirra um afkomu á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Það er því sennilegt að tilboðið verði samþykkt.