Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Afar ólíklegt að blaðamennirnir fjórir verði ákærðir

Mynd: RÚV / RÚV
Hæstaréttarlögmaður telur afar ólíklegt að ákæra verði gefin út á hendur blaðamönnunum fjórum fyrir meint brot gegn friðhelgi einkalífs með skrifum sínum um starfsmenn Samherja. Þekkt sé að mál gegn blaðamönnum sé höfðað til að fæla þá frá fréttaskrifum.

Páll Steingrímsson, skipstjóri hjá Samherja, kærði í fyrravor til lögreglu stuld á síma. Garðar Gíslason, lögmaður Samherja og lögmaður Páls, segir í samtali við fréttastofu að sú kæra hafi ekki beinst gegn einstaklingum en það sé lögreglunnar að ákveða hverja hún kalli til yfirheyrslu. Stundin og Kjarninn birtu fréttir í fyrravor um samskipti fólks sem kallaði sig „skæruliðadeildina“. Hópurinn tengdist Samherja með ýmsum hætti og samskiptin sýndu tilraunir hópsins til að hafa áhrif á umræðu um fyrirtækið í fjölmiðlum. 

Fjórir blaðamenn fengu svo símtal frá lögreglunni á Norðurlandi eystra í gær þar sem þeir voru boðaðir til skýrslutöku og tilkynnt að þeir væru með réttarstöðu sakbornings fyrir meint brot gegn friðhelgi einkalífs.

Lögregla upplýsir ekki um sakargiftir

Fréttastofa reyndi en án árangurs að fá upplýsingar frá lögreglu um hvort málið tengdist kæru Páls og hversu margir hefðu réttarstöðu sakbornings. Síðdegis kom svo yfirlýsing þar segir segir að embættið sé með brot gegn friðhelgi einkalífs til rannsóknar og ekki verði veittar frekari upplýsingar um málið.

Umfjöllunin hafi átt erindi við almenning

Gunnar Ingi Jóhannsson hæstaréttarlögmaður hefur unnið mörg mál fyrir fjölmiðla, þar á meðal fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. 

„Það sem er sérstakt í þessu máli er að það skuli vera búið að gefa blaðamönnum sem eru að fjalla um mál, sem ég held að enginn deili um að hafi átt erindi við almenning, gefa þeim réttarstöðu sakbornings, vegna umfjöllunar um slík mál,“ segir Gunnar Ingi.

Ekki refsivert ef fréttaskrifin varða almannahagsmuni

Í hegningarlögum segir að ekki sé refsivert ef gengið er inn á friðhelgi einkalífs ef það er gert með vísan til almannahagsmuna. Sjaldgæft sé að blaðamenn fái réttarstöðu sakbornings. Það hafi þó gerst þegar skrifaðar voru fréttir upp úr lánabókum bankanna í Hruninu. Þau mál hafi verið felld niður.

„En ég hygg að þetta sé afar sjaldgæft. Maður getur ímyndað sé að lögreglan hljóti að búa yfir einhverjum gögnum sem hún telur að réttlæti það að gefa þessum aðilum réttarstöðu sakbornings í þessum málum,“ segir Gunnar Ingi.

Fréttaskrif upp úr tölvupóstum Jónínu Ben

Sakamál er varða brot gegn friðhelgi einkalífs séu sjaldgæf. Oftast séu höfðuð einkamál vegna slíkra ásakana. Til að mynda hafi verið höfðuð tvö einkamál vegna fréttaskrifa upp úr tölvupóstum Jónínu Benediktsdóttur. Blaðamenn voru sýknaðir af ærumeiðingum vegna fréttaskrifa um þau atriði í tölvupóstunum sem þóttu eiga erindi við almenning.

Agnes Braga neitaði að upplýsa og það stóð

Það leiki lítill vafi á að það hafi umfjöllun um skæruliðadeild Samherja einnig gert, segir Gunnar. Hann bendir á að þeim, sem fá réttarstöðu sakbornings, sé ekki skylt að tjá sig um það sem þeir eru spurðir um í skýrslutöku. Vitni megi hins vegar krefja svars. Hins vegar hafi reynt á það í máli Agnesar Bragadóttur þegar hún var sem vitni krafin svara um heimild fyrir fréttaskrifum sínum um uppskiptingu eigna Sambandsins. Agnes neitaði að upplýsa um það og það stóð.

En er líklegt að rannsókn á meintum friðhelgisbrotum blaðamannanna fjögurra leiði til ákæru?

„Mér finnst það bara afar ólíklegt,“ segir Gunnar Ingi.

Málssóknir notaðar til að „kæla“ blaða- og fréttamenn

Gunnar segir mál sem þessi líkleg til að fæla blaða- og fréttamenn frá því að fjalla um mál sem varða almannahagsmuni.

„Já, ég held að það sé enginn vafi á því. Til dæmis er það þekkt að meiðyrðamálssóknir gegn blaðamönnum, það er þekkt að þeim sé ætlað að hafa einhvers konar kælingaráhrif eða að lögsóknir séu eingöngu til þess að valda kostnaði og fyrirhöfn. Og það að blaðamönnum sé gefin réttarstaða sakbornings fyrir að fjalla um mál sem má telja nokkuð augljóst að hafi átt brýnt erindi við almenning, það er til þess fallið að hafa áhrif á að hvort og þá hvernig blaðamenn fjalla um mál og hvað þeir gera við gögn sem þeim berast jafnvel þó að þeir telji að þau eigi erindi við almenning,“ segir Gunnar Ingi.