Maður á þrítugsaldri var skotinn til bana í Skarpnäck-hverfinu í suðurhluta Stokkhólms í gærkvöld. Skömmu áður var annar ungur maður særður skotsári í Farsta sem er skammt undan. Lögregla rannsakar hvort málin tengist.
Lögreglu barst tilkynning um skotárásina í Skarpnäck á ellefta tímanum í gærkvöld þar sem ungi maðurinn fannst í blóði sínu. Hann var fluttur með sjúkraþyrlu á sjúkrahús þar sem hann lést af sárum sínum.
Að minnsta kosti tíu skotum var hleypt af í árásinni að því er fram kemur í frétt sænska ríkisútvarpsins en lögregla hefur mann í haldi grunaðan um aðild. Rannsókn stendur yfir á hvort árásirnar tvær tengjast.