
Þrengslavegi lokað - gul viðvörun í veðurkortunum
Tvær björgunarsveitir á Suðurnesjum voru kallaðar út í kvöld til aðstoðar við ökumenn í föstum bílum á Suðurstrandarvegi. Karen Lárusdóttir verkefnastjóri hjá Landsbjörg segir að búið sé að bjarga fólkinu og kallað hafi verið eftir svokallaðri mjúkri lokun í Þrengslum.
Vont veður er á svæðinu, skafrenningur og þungfært. Svipað er uppi á teningnum á leiðinni milli Reykjavíkur og Akraness. Vegfarandi greindi fréttastofu frá að þar væri víða svo blint að ekki sæist milli stika.
Þæfingsfærð er í Ölfusi þar sem snjóar. Éljagangur eða snjókoma er á höfuðborgarsvæðinu og víða hálka.
Gul viðvörun á morgun
Gul veðurviðvörun er í gildi fyrir höfuðborgarsvæðið, Suðurland, Faxaflóa, Breiðafjörð, Suðausturland og Miðhálendið. Það gengur í suðaustanhvassviðri eða storm 13 til 23 metra á sekúndu um miðjan dag á morgun.
Veðrinu fylgir snjókoma, slydda eða rigning - víða getur orðið talsverður skafrenningur. Ekki er búist við að veðrið gangi niður fyrr en næstu nótt. Vegurinn um Hellisheiði gæti lokast og eins Þrengsli, Mosfellsheiði og vegurinn um Kjalarnes að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar.
Annars er veðurspáin þannig að nú ríkir hæg austlæg átt þrír til átta metrar á sekúndu og bjartviðri, nema á suðvesturhorninu og Vesturlandi þar sem er suðaustan fimm til þrettán með snjókomu.
Frostið nemur einu til átján sigum, mildast með suðurströndinni. Í fyrramálið tekur svo að bæta í suðaustanáttina eins og áður sagði. Hægara verður og þurrt fyrir norðan en næstu daga eru austlægar áttir ríkjandi. Spáð er hvassviðri á þriðjudag en síðan dregur úr vindi.
- Innlent
- Höfuðborgarsvæðið
- Suðurland
- Vesturland
- Akraneskaupstaður
- Mosfellsbær
- Reykjavíkurborg
- Umhverfismál
- Veður
- Þrengsli
- Hellisheiði
- Færð á vegum
- Veðurstofa Íslands
- Gul viðvörun
- Björgunarsveit
- Suðurstrandarvegur
- Suðurnes
- Reykjanesskagi
- Landsbjörg
- Ölfus
- éljagangur
- Snjókoma
- Hálka
- Faxaflói
- Breiðafjörður
- miðhálendið
- slydda
- Rigning
- Kjalarnes
- Mosfellsheiði
- Vegagerðin
- Veðurspá