Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Segir yfirheyrslur yfir blaðamönnum óverjandi

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Ákvörðun lögreglunnar á Norðurlandi um að kalla til þrjá blaðamenn til yfirheyrslu vegna umfjöllunar þeirra um svokallaða skæruliðadeild Samherja, er óskiljanleg og óverjandi að mati formanns Blaðamannafélags Íslands. Af málavöxtum að dæma virðist það vera ætlun lögreglu að krefjast þess að blaðamennirnir gefi upp heimildamenn sína, sem þeir hafi fullan rétt á að vernda.

„Á þessum tímapunkti er ekki ljóst nákvæmlega um hvað blaðamennirnir þrír, Aðalsteinn Kjartansson á Stundinni, Arnar Þór Ingólfsson, blaðamaður Kjarnans, og Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, hafa unnið sér til saka til þess að verðskulda stöðu sakbornings við rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi,“ segir Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannfélags Íslands.

Blaðamennirnir eru sagðir vera grunaðir um brot gegn friðhelgi einkalífs með umfjöllun sinni um samskipti fólks sem tengdist Samherja. Þó hafi enginn véfengt fréttirnar og Samherji hafi opinberlega beðist afsökunar á framferðinu sem þar var lýst.

Almannahagsmunir vega alltaf þyngra en einkalíf

„Hvenær sem gögn eru þess eðlis að þau gætu talist brot gegn friðhelgi einkalífsins þarf blaðamaður að meta þau með tilliti til almannahagsmuna og meta hvort vegi þyngra, friðhelgi einkalífsins eða almannahagsmunir. Þegar almannahagsmunir vega þyngra er það aldrei spurning að slík gögn eigi að nota til grundvallar fréttum, sama hvernig gögnin eru fengin“ segir Sigríður Dögg.

Þá bætir hún við að alþjóðastofnanir hafi lagt áherslu á að gætt sé varkárni í rannsóknum sem snúi að blaðamönnum. Dómar Mannréttindadómstóls Evrópu séu skýrir, blaðamenn hafi fullan rétt á því að vernda heimildarmenn sinna og þeim beri í raun skylda til þess. Þá skipti ekki máli hvort upplýsingarnar séu fengnar með lögmætum hætti eða ekki. Kveðið er á um verndunina í íslenskum lögum og um það hafa fallið margir dómar.

„Það sem er einna alvarlegast í þessu máli er að lögreglan á Akureyri virðist ekki átta sig á því að öll afskipti dómsvaldsins af blaðamönnum þurfa að vera vel rökstudd og hafa skýran tilgang og að þörfin sé rík og ganga út frá þeirri ófrávíkjanlegu meginreglu að blaðamenn verndi heimildarmenn sína,“ segir formaður Blaðamannafélagsins.

Sigríður Dögg segir að afskipti lögreglunnar af blaðamönnunum sé óskiljanleg og nær óverjandi þar sem ljóst sé að þeim beri skylda til þess að vernda heimildarmenn sína. Það hafi hamlandi áhrif á störf rannsóknarblaðamanna og tefji þá frá öðrum störfum.

„Evrópuráðið hefur bent á að þessu til viðbótar geti afskipti lögreglu sem þessi, af blaðamönnum, dregið úr vilja almennings til að láta blaðamönnum í té upplýsingar, sem hafi einnig áhrif á rétt almennings til upplýsinga,“ segir Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélagsins.