Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Rómantíkin drýpur af veggjum blómabúða í dag

14.02.2022 - 11:48
Mynd: Óðinn Svan / RÚV
Verslanir og veitingastaðir keppast við að fanga athygli ástfanginna landsmanna í dag, Valentínusardag. Eigandi blómabúðar á Akureyri segir unga fólkið meira opið fyrir nýjum hefðum.

Dauðafæri að skora tvö mörk með stuttu millibili

Segja má að rómantíkin hafi dropið af öllum veggjum í Blómabúð Akureyrar í dag. Hjörtu, bangsar og súkkulaði hvert sem litið er. Gunnhildur Halldórsdóttir, verslunarstjóri segir daginn hafa byrjað snemma. „Já, það er ekki alltaf svona röð hérna klukkan 10 á morgnana, þannig að það er bara skemmtilegt að byrja daginn svona. Yngra fólk er duglegt að halda upp á þennan dag en við þessi eldri kannski höldum frekar í gömlu hefðirnar og notum konudaginn og bóndadaginn,“ segir Gunnhildur. 

Nú eru alltaf einhver sem tuða og nagga yfir svona dögum og segja að þetta sé nú óttaleg lágmenning er það ekki?

„Jú jú, en okkur finnst frábært að fá svona flottan dag. Svo er alltaf eitthvað nýtt að koma og núna erum við farin að fá súkkulaðihúðaðar rósir. Það er reyndar stutt á milli Valentínusar- og konudags en það er alltaf skemmtilegt að hafa eitthvað svona.“

Það er þá bara dauðafæri að skora tvö mörk á stuttum tíma?

„Já það má segja það.“ 

„Mig langaði í blóm handa sjálfum mér“

Einn þeirra sem mætti snemma í blómabúðina í morgun var Kormákur Rögnvaldsson. „Já ég er hér í tilefni dagsins, af því að mig langaði í blóm handa sjálfum mér og það var enginn annar að fara að kaupa þau handa mér.“ 

Þannig að þetta er ekki fyrir einhverja elsku sem bíður heima?

„Nei ég er reyndar að fara að kaupa annan handa vinkonu minni.“

Reiknarðu með að fá einhvern annan vönd í dag?

„Nei ég geri það ekki,“ segir Kormákur og hlær. 
 

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan - RÚV