Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Óvenjuleg tíð á Suðvesturlandi

Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Óvenjuleg tíð veldur því að erfitt er að halda veginum yfir Hellisheiði opnum þessa dagana. „Það snjóar gríðarlega mikið og áttirnar eru þannig að það kyngir niður á Hellisheiði og er mikið fannfergi,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar. Hann segist halda að þetta séu aðstæður sem reiknað er með á kannski fimm eða sex ára fresti.

Hann telur að Hellisheiðin verði lokuð þangað til í fyrramálið. Vegagerðin vinnur samt hörðum höndum við mokstur og reynt verður að halda Suðurstrandarvegi opnum eins og hægt er. Hann segir veginn þó ekki færan nema betur búnum bílum.

Vegir frá höfuðborgarsvæðinu til austurs og norðurs eru lokaðir og geta orðið það næsta sólarhringinn. Þá er snjóþekja á vegum innanbæjar. G. Pétur heldur að að það verði lokað um einhvern tíma. „Það hefur kyngt þannig niður snjó og spáin gerir ráð fyrir að það auki vind á næstunni, sem gerir okkur þá líka erfiðara fyrir,“ segir hann. Hann hvetur fólk til að skoða kortið á vef Vegagerðarinnar áður en lagt er í hann, og hringi í 1777 ef það er á ferðinni og fari farlega.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV