Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Lýðheilsufræðingur telur 90% Færeyinga smitast af COVID

Mynd með færslu
 Mynd: KVF
Færeyskur lýðheilsufræðingur telur líklegt að nærri níu af hverjum tíu eyjarskeggja smitist af COVID-19 áður en faraldurinn gengur yfir. Hann telur ólíklegt að nýjum smitum fækki á næstunni.

Nú þegar hefur um helmingur Færeyinga sýkst af völdum kórónuveirunnar og líklegt þykir að mjög eigi eftir að fjölga í þeim hópi. Paul Weihe prófessor og lýðheilsufræðingur segir í samtali við KVF að um 27 þúsund hafi fengið eða séu með COVID-19.

Ólíklegt sé að einhvers konar hjarðónæmi náist á næstunni og að daglegum smitum fækki ekki fyrr en 60 til 70 af hundraði hafi tekið veiruna. Sömuleiðis segir Weihe flest benda til að bóluefni veiti ekki vörn gegn smiti af omíkron-afbrigðinu en gagnist vel til að komast hjá alvarlegum veikindum.

Weihe telur sennilegt að mun fleiri hafi smitast en opinberar tölur gefi til kynna í ljósi þess hve margir reynast einkennalausir en jafnframt að opinberar tölur verði áfram háar, hið minnsta út febrúar.

Nýjustu tölur á kórónuveiruvefnum færeyska sýna að fimm liggja á sjúkrahúsi vegna eða með COVID-19 í Færeyjum og 22 hafa andast af völdum sjúkdómsins.