Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Fylgdarakstur að Hvalfjarðargöngum og víða ófært

14.02.2022 - 15:33
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Boðið verður upp á fylgdarakstur milli Hvalfjarðarganga og Esjumela á meðan veður leyfir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni. Víða er þung færð á höfuðborgarsvæðinu og ófært á fjallvegum suðvestanlands.

Uppfært kl. 16:40 - Fylgdarakstri hætt

Víða lokað fram til morguns

Vegurinn um Kjalarnes hefur verið meira og minna lokaður í dag en nú verður fylgdarakstur í takmarkaðan tíma. Vegagerðin hefur tilkynnt að athugað verði með opnun þar á miðnætti.

Vegirnir um Hellisheiði, Þrengsli og Mosfellsheiði eru lokaðir. Þar er óvissustig í gildi til klukkan 8 í fyrramálið.

Mokað linnulaust

Flóttamannaleiðin milli Garðabæjar og Hafnarfjarðar er ófær. Hálkublettir eru á helstu vegum á höfuðborgarsvæðinu og enn er þungfært víða í efri byggðum og í íbúðagötum. Snjómokstursmenn segjast varla hafa haft undan að ryðja götur borgarinnar í morgun og von er á hvassviðri í kvöld.

Hálkublettir eru á Reykjanesbraut og hálka á Suðurstrandarvegi. Vegagerðin bendir vegfarendum á þessa vegi sem hjáleið vegna lokana á Hellisheiði og í Þrengslum.