Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Eldur í veitingahúsi ógnaði Norræna safninu

14.02.2022 - 03:27
Eldur kom upp í veitingahúsi á Djurgården í Stokkhólmi aðfaranótt 14. febrúar 2022. Slökkvilið óttaðist að eldurinn gæti náð Norræna safninu sem þar stendur nærri.
 Mynd: Maria Makar/SVT
Tuttugu sveitir Slökkviliðs Stokkhólmsborgar börðust í nótt við eld í veitingahúsi á eynni Djurgården. Óttast var um tíma að eldurinn teygði sig yfir í Norræna safnið sem stendur þar nærri.

Sænska ríkisútvarpið hefur eftir Tommy Wållberg sem stjórnar aðgerðum á svæðinu að veitingahúsinu verði ekki bjargað, það sé ónýtt. Eldtungur stóðu tíu metra upp af húsinu þegar verst lét.

Wållberg segir eldinn svo ofsafenginn að reykkafarar hafa ekki hætt sér inn í húsið til að leita að fólki fyrr en nú. Enginn reyndist innandyra. Wållberg segir að hætta hafi verið á að eldurinn teygði sig yfir í Norræna safnið.

Þeirri hættu hafi verið afstýrt en hann segist ekki geta sagt til um orsakir brunans, það sé hlutverk lögreglu að grennslast fyrir um það.  

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV