Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

„Ætla ekki að leika Skugga-Svein, ég ætla að vera hann“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ætla ekki að leika Skugga-Svein, ég ætla að vera hann“

14.02.2022 - 12:50

Höfundar

Jón Gnarr fer með titilhlutverkið í Skugga-Sveini í uppfærslu Leikfélags Akureyrar sem var frumsýnt í Samkomuhúsinu á laugardagskvöld.

Skugga-Sveinn eftir þjóðskáldið Matthías Jochumsson var eitt þekktasta og vinsælasta leikverkið á Íslandi um áratuga skeið. Uppfærslan á Akureyri er ný leikgerð eftir Mörtu Nordal, leikhússtjóra, sem jafnfram leikstýrir. Andi kúrekavestra svífur þar yfir vötnum.  

„Já, við erum að prófa nýja hluti. Þetta er mjög skemmtilegt verk, það er mikil gleði en þetta er líka óður til íslensks leikhúss, til Sigurðar Guðmundssonar málara, sem var fyrsti leiktjaldamálari Íslands,“ segir Marta í samtali við Kastljós.  

„Mér finnst þetta mjög vel heppnað og við fara vel bil beggja að prófa nýtt og halda tryggð við þetta gamla,“ bætir Jón Gnarr við, en hann hefur verið að umbreytast í Skugga-Svein á undanförnum vikum. 

„Þegar ég undirbý mig fyrir hlutverk nota ég þekkta aðferð, svokallað method. Ég ætla ekki bara að leika Skugga-Svein, ég ætla að vera hann. Mig dreymir að sjóða feita sauði í gæru sinni ofan í hver.“ 

Kastljós fylgdi Jóni og leikhópnum eftir í undirbúningi sínum fyrir frumsýningu og sá Jón fara hamförum.