Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Spila Manilow og Macarena til að fæla brott mótmælendur

epa03155256 US musician Barry Manilow arrives for the 2012 Echo Music Awards in Berlin, Germany, 22 March 2012. The Echo Music Award is presented in 27 categories.  EPA/JENS KALAENE
 Mynd: EPA
Nýsjálensk yfirvöld tóku upp á þeirri nýlundu að spila í sífellu nokkur lög bandaríska söngvarans Barry Manilow og spænskan danssmell til að hrekja mótmælendur brott frá þinghúsinu í Wellington. Mótmælendur svöruðu í svipaðri mynt.

Nokkur vinsælustu lög Manilows, á borð við Mandy og Could It Be Magic eru endurtekin á fimmtán mínútna fresti ásamt spænska dansslagaranum Macarena. 

Mótmælendur hafa brugðist við með því að spila lög á borð við „We're Not Gonna Take It“ með bandarísku þungarokkssveitinni Twisted Sister. 

Áður hafði verið reynt að dreifa mótmælendum með því að sprauta yfir þá vatni en það dugði ekki til. Fólkið sem heldur til í tjaldbúðunum við þinghúsið gróf rennur sem leiddu vatnið á brott.

Því lagði Trevor Mallard forseti þingsins til að þeirri óvenjulegu aðferð yrði beitt að spila tónlist Manilows og spænska danssmellinn sem gerði allt vitlaust snemma á tíunda áratugnum.

Inn á milli laga fá mótmælendur að heyra skilaboð varðandi mikilvægi bólusetningar gegn COVID-19. Mótmælin hófust á þriðjudaginn þegar löng lest farartækja ók upp að þinghúsinu og mótmælendur skutu þar upp tjaldbúðum.

Andófið í Wellington er í anda mótmæla flutningabílstjóra í Kanada sem beinast gegn sóttvarnareglum stjórnvalda og þá einna helst bólusetningarskyldu bílstjóranna.

Heitið Frelsislestin var einnig tekið upp og mótmælendur teppa nú helstu akstursleiðir að miðborginni. Á annað hundrað mótmælenda var handtekið á fimmtudaginn en þá hafði nokkuð tekið að fækka í hópnum.

Aftur tók að fjölga nú um helgina. Nýsjálendingar hafa beitt mjög hörðum viðbrögðum í baráttunni við faraldurinn, útgöngubann sem snert hefur heilar borgir um langa hríð og lokun landamæranna hefur orðið til þess að halda smitum og dauðsföllum í skefjum.

Gremja hefur aukist mjög undanfarið vegna strangra reglna um einangrun smitaðra auk upptöku bólusetningarskyldu. Mótmæli hafa verið tíð og andstaða við ríkisstjórn Jacindu Ardern hefur vaxið verulega.