Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Go_A kemur fram á úrslitum Söngvakeppninnar

epa09221431 Go_A from Ukraine with the song 'Shum' perform during the Grand Final of the 65th annual Eurovision Song Contest (ESC) at the Rotterdam Ahoy arena, in Rotterdam, The Netherlands, 22 May 2021. Due to the coronavirus (COVID-19) pandemic, only a limited number of visitors is allowed at the 65th edition of the Eurovision Song Contest (ESC2021) that is taking place in an adapted form at the Rotterdam Ahoy.  EPA-EFE/ROBIN VAN LONKHUIJSEN
 Mynd: EPA

Go_A kemur fram á úrslitum Söngvakeppninnar

13.02.2022 - 21:03

Höfundar

Úkraínska hljómsveitin Go_A kemur fram á úrslitakvöldi Söngvakeppninnar sem fram fer í Söngvakeppnishöllinni í Gufunesi 12. mars. Hljómsveitin tók þátt í Eurovision í Rotterdam í fyrra fyrir hönd Úkraínu og varð í fimmta sæti með lag sitt, Shum.

Lagið náði töluverðum vinsældum hér á Íslandi. Íslenskir sjónvarpsáhorfendur voru næsthrifnastir af laginu á úrslitakvöldinu og gáfu því átta stig í símakosningu.

Árið 2020 komu norsku Eurovision-stjörnurnar úr Keiino fram á úrslitakeppni Söngvakeppninnar en síðastliðin ár hafa meðal annars Eleni Foureira, Måns Zelmerlöw, Loreen og Sandra Kim glatt íslenska áhorfendur.

Miðasala á Söngvakeppnina hefst miðvikudaginn 16. febrúar en keppnin hefst laugardaginn 26. febrúar. Um er að ræða 4 viðburði og gefst áhorfendum kostur á að vera í salnum á þeim öllum.

Rúnar Freyr Gíslason framkvæmdastjóri keppninnar segir það mikið ánægjuefni að sóttvarnarreglur séu að rýmka.

„Við hlökkum mikið til að fylla Gufunesið af fólki. Það hefur myndast gríðarleg stemmning á keppnum síðustu ára og það er ekki síst vegna þeirra sem mæta á staðinn og njóta með vinum og fjölskyldu,” segir Rúnar Freyr, en nú lítur út fyrir að minnst 1.000 manns geti komið saman á hverjum viðburði.

Hægt er að hlusta á öll lögin á songvakeppnin.is, þar sem einnig er að finna nánari upplýsingar um keppendur. 

Go_A var stofnuð 2012 og samanstendur af þeim Kateryna Pavlenko, Taras Shevchenko, Ihor Didenchuck og Ivan Hryhoriak.

Sveitin átti að keppa í Eurovision árið 2020 með lagið Solovey en vegna faraldurs kórónuveiru var keppninni frestað. Sveitin var því fengin til verksins árið eftir og flutti lagið Shum í keppninni í fyrra.