Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Tvær verslanakeðjur láta af grímuskyldu

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Ekki verður skylt að bera andlitsgrímu í verslunum Bónus og Krónunnar frá og með deginum í dag. Viðskiptavinir verslana eru þó hvattir til að huga að sóttvörnum og halda eins metra nálægðartakmörkum. Nýjar og rýmkaðar sóttvarnarreglur tóku gildi á miðnætti.

Samkvæmt nýju reglunum sem Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra kynnti í gær er gert ráð fyrir grímunotkun þar sem ekki er hægt að virða eins metra reglu en engar fjöldatakmarkanir eru í verslunum.

Annars gilda 200 manna fjöldatakmarkanir innandyra í stað fimmtíu áður og engar takmarkanir eru utandyra. Tilslökunin nú er tólf dögum fyrr á ferðinni en fyrirhugað var en Willum Þór sagði að svo gæti farið að öllu verði aflétt í lok mánaðar gerist ekkert óvænt.  

Helstu breytingar

Reglur um sóttkví féllu niður þegar í gær og fólki sem hefur verið útsett fyrir smiti er ekki lengur skylt að fara í smitgát. Þó er hvatt til hennar en reglur um einangrun eiga áfram við. Annars eru helstu breytingarnar þessar:

  • 200 manna fjöldatakmarkanir innandyra í stað 50 - engar utandyra
  • Engar fjöldatakmarkanir í verslunum
  • Allt að 1.000 manns með grímu á sitjandi viðburðum - hlé og veitingasala leyfð
  • Grímunotkun þar sem ekki er hægt að virða eins metra reglu
  • Full afköst heimil hjá sundlaugum og líkamsræktarstöðvum
  • Íþróttakeppnir og æfingar heimilar með 200 í hverju hólfi
  • Skólareglugerð fellur úr gildi - almennar reglur gilda en þær má þó rýmka
  • Skólaskemmtanir leyfðar í grunn- og framhaldsskóla án takmarkana
  • Vínveitingastaðir mega taka á móti gestum til miðnættis, allir út fyrir eitt
  • Hvorki þarf sýnatöku vegna loka sóttkvíar í dag né í lok smitgátar.