Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Þriðji sendiherrann í röð sem er bakhjarl forseta

12.02.2022 - 12:13
epa09669864 President Joe Biden gives remarks in Statuary Hall of the U.S Capitol in Washington, D.C., USA, 06 January 2022, to mark the one year anniversary of the attack on the Capitol.  EPA-EFE/Greg Nash / POOL
 Mynd: EPA-EFE - The Hill
Joe Biden Bandaríkjaforseti ætlar að tilnefna Carrin Patman, sem vann fyrir forsetaframboð Bidens og studdi það fjárhagslega, sem næsta sendiherra á Íslandi. Síðustu þrír sendiherrar hafa allir verið bakhjarlar Bandaríkjaforseta.

Bandaríkjaforseti hefur það hlutverk að skipa sendiherra og öldungadeild þingsins yfirheyrir og staðfestir tilnefningarnar. Síðustu áratugi hafa þægilegri sendiherrastólar gjarnan farið til stuðningsfólks forseta, segir Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor í stjórnmálafræði.

„Í dag líta þau á þetta sem svona ákveðna bitlinga þannig að þau samþykki þá sem hinn flokkurinn skipar vegna þess að þau vita að það kemur að sér einhvern tímann.“

Þannig það ríkir í raun almenn sátt um þetta á þingi? „Já, pólitíkin virðist vera sátt við þetta en þau sem starfa innan utanríkisþjónustunnar og vinna sig upp þar inni, það er töluverð gagnrýni þaðan og auðvitað líka frá ýmsum eftirlitsstofnunum. Fólk gagnrýnir það að þú getir keypt þér embættið.“

Biden hefur nú tilnefnt um 90 sendiherra. Þar af má segja að um sextíu til sjötíu prósent hafi verið pólitískt valin.

„Þetta er auðvitað talið svolítið gagnrýnivert vegna þess að það er ekkert sem segir að þetta fólk hafi hæfni til að gegna þessum embættum. Það kemur ekkert alltaf vel út fyrir Bandaríkin þegar illa upplýstir eða slæmir stjórnendur eru starfandi í sendiráðum á erlendri grundu,“ segir Silja Bára.