Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Íslendingar hvattir til að vera á varðbergi

Mynd með færslu
 Mynd: Kristján Þór Ingvarsson - RÚV
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir ljóst að Atlantshafsbandalagið geti ekki setið aðgerðalaust hjá kæmi til innrásar Rússa í Úkraínu. Sendiráð Dana í höfuðborginni Kíev hvetur landa sína til að yfirgefa landið. Utanríkisráðuneytið leggur að Íslendingum að fylgjast með viðbrögðum annarra sendiráða.

Bandarísk yfirvöld telja að Vladimír Pútín, Rússlandsforseti, hafi ákveðið að ráðast inn í Úkraínu. Joe Biden Bandaríkjaforseti greindi forsvarsmönnum Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins frá þessu á fundi í gærkvöld. 

Að minnsta kosti átta íslenskir ríkisborgarar eru í Úkraínu að sögn Sveins H. Guðmarssonar upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins. Þetta kemur fram í frétt Morgunblaðsins í dag en danska sendiráðið þjónustar íslenska ríkisborgara í landinu.

Fólki er ráðlagt frá ferðalögum til Úkraínu vegna hættu á innrás Rússa. Haft er eftir Þórdísi að bein hernaðarleg íhlutun Atlantshafsbandalagsins sé ekki í bígerð enda sé Úkraína ekki hluti bandalagsins.

Því virkjist ekki 5. grein NATÓ-samningsins þar sem segir að árás á eitt bandalagsríki skuli túlkuð sem árás á þau öll.

Hinsvegar hafi ríki bandalagsins verið skýr um að innrás hefði alvarlegar afleiðingar efnahagslega á Rússa auk þess sem fjölgað hafi verið í herliði og aukinn viðúnaður á tilteknum svæðum í Evrópu. 

Biden hyggst ræða símleiðis við Vladimír Pútín Rússlandsforseta strax í dag og Emmanuel Macron Frakklandsforseti ætlar að gera slíkt hið sama nú um helgina.  

Fréttin var uppfærð með breyttum upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu en það hefur ekki enn lagt að íslenskum ríkisborgurum að yfirgefa Úkraínu. Það hafi Danir ekki heldur gert.