Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Tveggja heima stilla

Mynd með færslu
 Mynd: Silja Rós - Stay Still

Tveggja heima stilla

11.02.2022 - 12:48

Höfundar

Stay still er önnur plata plata Silju Rósar. Kemur hún í kjölfar hins vel heppnaða frumburðar Silence sem út kom fyrir fjórum árum síðan. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

Silence var ansi bratt opnunarverk tónlistarkonu og ansi vel heppnað líka þrátt fyrir eilitla hnökra hér og hvar. Ástríða og atgervi hins unga miðjaði plötuna,  „heiðarlegur, fölskvalaus þráður,“ út í gegn eins og ég reit á sínum tíma. Tónlistin nokkurs konar popprokk, með dassi af þjóðlagatónlist og djassi. Á Stay still er skipt um gír, R og B straumar einkennandi í bland við móðins raftakta og „lifandi“ hljómborð og gítar. Það eru annars Þeir Ýmir Rúnarsson (WHYRUN) og Sæmundur Hrafn Linduson (SLAEMI) sjá um forritun og taktsmíðar, Magnús Orri Dagsson spilar á gítar og bassa, Jakob Gunnarsson spilar á hljómborð og Bergur Einar Dagbjartsson trommar.

Sterkast hérna, líkt og á síðustu plötu, er sjálf söngröddin. Falleg, löngunarfull og „alvöru“. Silja heldur manni við efnið sama hvaða lag er undir. Tónlistin sem slík er hins vegar upp og ofan. Stefnumót hvassra R og B takta, raddleiðréttinga (auto-tune) og kaldra, móðins rafmotta og svo lifandi hljóðfæraleiks, píanós og gítars, gengur ekki alltaf upp. „Raging Fires“ er ágætt dæmi þar um, hádramatískt lag sem veit ekki alveg hvað það vill vera. „Success“ er annað, hvar raftaktar og tölvuvinnsla styðja illa við annars ágæta lagasmíð. „Holding on to U“ hljómar þá eins og hálfgerð skissa. En hér eru líka lög sem ganga prýðilega upp. Opnunarlagið, „Body & Soul“, er sannfærandi og þar vinna þessir tveir heimar saman fremur en á móti hvor öðrum. Titillagið nær að vera öflug og áhrifarík ballaða, djasskeimur og stálköld sveifla hönd í hönd. „Hold Me“ er þá fallegt lokalag, þar sem blíð og einlæg söngröddin siglir smíðinni glæsilega heim.  En þegar ég horfi yfir sviðið finnst mér nánast eins og það hefði þurft að velja annað hvort. Að gera ískalda, krómaða R og B plötu eða þá lífræna, djassaða poppplötu.

Höfum það á hreinu að Silja Rós sýnir bæði djörfung og þor í útsetningarvali og uppbyggingu allri þó að vel hefði verið hægt að tálga eitt og annað betur til að mínu mati. Ekki er málum blandið að Silja er hæfileikarík tónlistarkona, á margt inni, og ég er spenntur að heyra hvaða snúning hún tekur næst á þá köllun sem hún ber í brjósti.

Tengdar fréttir

Mynd með færslu
Tónlist

Silja Rós frumsýnir nýtt myndband