Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Nemendur vilja að fjármál verði skyldufag í skólum

Nemendur úr efri bekkjum færeyskra grunnskóla sátu sérstakt ungmennaþing Landsþingsins í febrúar 2022. Að því búnu voru 13 tillögur lagðar fyrir landsstjórnina.
 Mynd: Bjarni Árting Rubeksen
Nemendur í efri bekkjum grunnskóla í Færeyjum vilja að fjármál einstaklinga verði skyldufag í skólum. Á fjórða tug ungmenna sat sérstakt lögþing í Færeyjum fyrr í vikunni og lögðu að því loknu þrettán tillögur fyrir landsstjórnina.

Kristina Berg ein af nemendunum segir í samtali við færeyska ríkísútvarpið að allt of margt ungt fólk lendi í fjárhagsvandræðum því þeim sé aldrei kennt hvernig umgangast eigi peninga.

„Á fullorðinsárum þurfum við að greiða skatta og borga af lánum,“ segir hún. Þetta var í áttunda sinn sem skólanemendur settust á Lögþing Færeyja en það gerðist fyrst árið 2005.

Af öðrum tillögum sem skólanemendurnir lögðu fyrir landsstjórnina má nefna styttingu skólavikunnar í efri bekkjum, auðveldara aðgengi stúlkna og kvenna að tíðavörum og að löggjafarvald varðandi sóttvarnir verði flutt frá Danmörku til Færeyja ásamt forráðasvæði landlæknisembættisins.

Auk þessa stinga ungmennin upp á að löglegt verði frá sextán ára aldri að neyta áfengis með undir 16,5% áfengisinnihaldi en jafnframt að komið verði í veg fyrir aðgengi yngri en átján ára að tóbaksvörum.