Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Mótmælendur loka fleiri birgðaleiðum

epa09745271 An aerial photo made with a drone looking towards Canada and the Canadian Customs station shows the closed Ambassador Bridge over the Detroit River that links the US and Canada between Windsor, Ontario, Canada and Detroit, Michigan, USA, 10 February 2022. The bridge, a vital link where 25 percent of goods between the two countries passes on an estimated 10,000 trucks each day, has been shut down by truckers protesting vaccine mandates in Canada.  EPA-EFE/TANNEN MAURY
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Mótmælendur í Kanada hafa nú lokað þriðju birgðaleiðinni sem tengir landið við Bandaríkin. Svipuð mótmæli eru hafin í Evrópu en stjórnvöld í Washington hvetja nágranna sína í norðri til að stöðva mótmælin.

Ambassador-brúin sem tengir Ontario og Detroit hefur verið lokuð í nokkra daga sem varð til þess að bílaframleiðendur urðu að draga úr afköstum í verksmiðjum. Um það bil fjórðungur allra landflutninga milli landanna fer um brúna.

Eins hefur leiðin milli Montana í Bandaríkjunum og Alberta í Kanada verið teppt. Nú bætist þriðja leiðin við sem tengir Manitoba við Bandaríkin, sem mótmælendur lokuðu í gær.

Aukið hefur verið við lögreglulið í höfuðborginni Ottawa þar sem mótmæli hafa staðið í um tvær vikur. Þar hefur nokkur fjöldi fólks verið handtekinn og fjölmargir sektaðir. Eins hafa flutningabílar verið dregnir á brott en hundruð farartækja standa ennþá allt umhverfis Þinghúshæðina. 

AFP-fréttaveitan hefur eftir Naomi Gilman úr hópi mótmælenda í borginni að það hefði verulegar afleiðingar þegar Kanadamenn létu í sér heyra. Hún sagði landsmenn lítið hafa sagt um Covid-takmarkanir í tvö ár en að nú endurómuðu mótmæli þeirra um allan heim. 

Mótmæli í sama anda eru hafin víða um heim, meðal annars á Nýja Sjálandi, í Frakklandi og Belgíu. Fjöldi fólks stefnir akandi til Parísar og eins til Brussel en yfirvöld ríkjanna ætla að koma í veg fyrir að vegir teppist og hóta þungum sektum eða fangelsisvist. 

Justin Trudeau forsætisráðherra sagði í samtali við blaðamenn að mótmælin væru óásættanleg og skaðleg fyrir samfélagið allt. Alejandro Mayorkas heimavarnaráðherra Bandaríkjanna þrýsti á Kanadastjórn að leysa vandann sem skapast hefur við landamæri ríkjanna. 

Yfirvöld í fylkjunum Alberta, Quebec og Saskatchewan hafa ákveðið að slaka á sóttvarnareglum smám saman. Stjórnmálaskýrendur telja að það sé til að koma í veg fyrir að mótmæli af svipuðum toga brjótist þar út.