Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Innskot kviku gætu ógnað innviðum

Mynd með færslu
Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur. Mynd: RÚV
Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur segir gangainnskot á Reykjanesskaga mögulega geta ógnað mikilvægum innviðum á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum. Innskotin geti haft áhrif á kerfi sem fæða vatns- og hitaveitur ásamt jarðvarmavirkjunum hvort sem þau leiði til eldgoss eða ekki.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í viðtali Morgunblaðsins við Pál sem segir jafnframt að enn megi búast við snörpum jarðskjálfta við höfuðborgarsvæðið. Algerlega óvíst sé þó hvenær hann gæti orðið.

Páll segir þegar hafa orðið kvikuinnskot á þremur til fjórum stöðum á Reykjanesskaga en yrði innskot á slæmum stað gæti það spillt framangreindum innviðum til frambúðar.

Hann segir þó engin merki um að slíkur atburður sé yfirvofandi en eldgosið í Geldingadölum kveður hann hluta flókinnar atburðarásar á Reykjanesskaga.

Páll dregur upp mynd af margvíslegri atburðarás sem gæti orðið, meðal annars með eldsumbrotum á landi eða hafi eða þá innskotsvirkni til dæmis við Krýsuvík, Svartsengi, Heiðmörk eða Bláfjöll.

Páll bendir jafnframt á að eldgos á Reykjanesskaga séu almennt hraungos og yfirleitt lítil eða meðalstór.