Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Flugvirki lagði ríkið í deilu um ferðatíma í vinnuferð

11.02.2022 - 16:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur komst í dag að þeirri niðurstöðu að þeir klukkutímar sem fóru í ferðalag flugvirkja hjá Samgöngustofu til Ísraels og aftur til Íslands annars vegar og Sádi-Arabíu og aftur til Íslands hins vegar teljist vinnutími. Leitað var til EFTA-dómstólsins eftir ráðgefandi áliti í málinu sem komst að sömu niðurstöðu og héraðsdómur

Flugvirkinn fór tvívegis í ferðir á vegum Samgöngustofu. Hann fór til Ísraels til að annast skráningu flugvélar Icelandair en til Sádi-Arabíu vegna úttektar á línustöð og tveimur vélum Air Atlanta. 

Hann fékk hins vegar aðeins greitt fyrir dagvinnu en taldi sig eiga rétt á að fá greitt fyrir þann tíma sem hann var á ferðalagi; á leið til og frá áfangastað.

Lögmaður flugvirkjans krafðist þess að leitað yrði ráðgefandi álits hjá EFTA-dómstólnum. Þeirri beiðni var hafnað í héraðsdómi en Landsrétti sneri þeim úrskurði við. 

EFTA-dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að sá tími sem færi í ferðalög starfsmanns utan hefðbundins vinnutíma til áfangastaða í vinnuferðalögum teldist vinnutími.  Og héraðsdómur tók undir það í dag og segir álit EFTA-dómstólsins stutt haldbærum rökum.  

Dómurinn taldi reyndar að draga bæri frá þann tíma sem flugvirkinn hefði varið  til og frá hefðbundinni starfsstöð sinni í Reykjavík. Þar sem sá tími lá ekki nákvæmlega fyrir mat dómurinn hann 20 mínútur aðra leið og þar með 40 mínútur daglega. 

Íslenska ríkinu var jafnframt gert að greiða 3,6 milljónir í málskostnað.