Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Búið að fresta því að ná upp vélinni vegna íss

11.02.2022 - 10:46
Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Búið er að fresta því að ná upp flugvélinni sem fórst á Þingvallavatni fyrir viku vegna aðstæðna á slysstað. Búðirnar á bakka vatnsins verða teknar saman í dag og fluttar í burtu. Í framhaldinu verða gerðar áætlanir um björgun vélarinnar og ráðist í þær þegar vatnið er opið og veður leyfir. Óvíst er hvenær það getur orðið.

Viðbragðsaðilar voru komnir á vettvang snemma í morgun og eru aðstæður veðurfarslega góðar. Þar er nú 6 stiga frost og hægviðri. Hins vegar hefur vatnið lagt á ný og þykktin á ísnum er slík að bátar ráða ekki við að brjóta sér leið um vatnið. Í tilkynningu frá lögreglu segir að ísinn á vatninu sé nú upp í 4 sentimetra þykkur og þar sem hann er brotinn leggur jafnharðan. 

Aðstandendur áttu kveðjustund í gær

Aðgerðir á vatninu í gær gengu vel og tókst björgunarliði að ná upp líkum allra þeirra fjögurra sem fórust upp úr ísilögðu vatninu. Þau voru flutt til Reykjavíkur í kapellu þar sem aðstandur komu og báru kennsl á sitt fólk og áttu stund með þeim. Í framhaldi af því voru líkin flutt til krufningar.

Beita þurfti fjarstýrðum kafbáti með gripörmum til þess að ná mönnunum af botni Þingvallavatns, eða af 40-50 metra dýpi.

Þyrla Landhelgisgæslunnar var á vettvangi við Ölfusvatnsvík í suðurhluta Þingvallavatns í gær og kannaði aðstæður. Þyrlan og áhöfn hennar gegna lykilhlutverki við að ná flugvélinni upp. Stefnt er að því að kafarar komi floti undir vélina og festingu svo unnt verði að hífa hana upp. 

Þingvallavegur er opinn.