Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Biden hvetur landa sína til að yfirgefa Úkraínu

11.02.2022 - 02:00
epa09744781 US President Joe Biden delivers remarks on his administration's work to lower health care costs, including prescription drug costs, for American families during an event at Germanna Community College Daniel Technology Center in Culpeper, Virginia, USA, 10 February 2022.  EPA-EFE/SHAWN THEW
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandaríkjaforseti hvetur landa sína sem staddir eru í Úkraínu til að yfirgefa landið umsvifalaust. Hann segir átök við Rússa á jörðu niðri geta haft skelfilegar afleiðingar. Því komi ekki til greina að senda hersveitir til Úkraínu.

Þetta kom fram í viðtali við Joe Biden Bandaríkjaforseta á NBC sjónvarpsstöðinni. Hann varaði við því að ef til átaka kæmi milli Bandaríkjamanna og Rússa gæti ástandið fljótt farið úr böndunum. 

Biden segir Rússa hafa á að skipa einhverjum öflugasta her heims og þvi væri vert að hafa allan varann á. Biden kvaðst þó vonast til að kæmi til innrásar gerðu Rússar ekkert það sem ógnað gæti Bandaríkjamönnum í Úkraínu.

Aðspurður hvað gæti orðið til þess að bandarískar hersveitir yrðu sendar til bjargar bandarískum ríkisborgurum sagði Biden það ekki mögulegt. Það yrði ekki gert undir nokkrum kringumstæðum.

Hann sagði að heimsmyndin væri gjörbreytt hæfust vopnaskipti milli Bandaríkjamanna og Rússa. Þá væri skollin á heimsstyrjöld. Mat bandarískra hermálayfirvalda og leyniþjónustu er að rússneskar skriðdrekasveitir gætu náð höfuðborginni Kíev á innan við tveimur sólarhringum. 

Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna varaði við því í gær að útilokað væri að koma bandarískum ríkisborgurum burt frá Úkraínu kæmi til innrásar Rússa í landið.