Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Vörður verður að greiða bifhjólamanni fullar bætur

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Hæstiréttur dæmdi tryggingafélagið Vörð í gær til að greiða ökumanni bifhjóls fullar bætur með vöxtum vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í umferðarslysi fyrir tæpum níu árum. Meginrök dómsins eru að félagið hafi látið hjá líða að tilkynna manninum formlega að það hygðist skerða bætur hans og því glatað rétti sínum til þess fyrir tómlæti.

Tryggingafélagið ákvað að skerða bætur mannsins um helming því það taldi hann eiga sök á hvernig fór. Hann hefði sýnt stórkostlegt gáleysi með því að aka langt yfir hámarkshraða í aðdraganda slyssins.

Maðurinn ók bifhjóli sínu aftan á pallbíl í ágúst 2013, slasaðist mikið og þurfti endurhæfingu. Hann krafðist fullra bóta af Verði, tæpra sextíu og sjö milljóna króna.

Í gögnum málsins kemur fram að starfsfólk tryggingafélagsins taldi ekki loku fyrir það skotið að ofsakstur bifhjólamannsins kynni að hafa valdið slysinu.

Maðurinn mótmælti því enda æki hann alltaf á löglegum hraða þar sem slysið varð.

Lögum samkvæmt ber að kaupa sérstaka slysatryggingu fyrir ökumenn hvers konar farartækja. Jafnframt er tryggingafélögum gert að tilkynna með óyggjandi hætti hyggist þau bera fyrir sig takmörkun á ábyrgð.

Hæstiréttur segir að það hafi Vörður ekki gert og því glatað rétti sínum fyrir tómlæti. 

Löng leið að niðurstöðu

Eftir að tryggingafélagið greiddi skertar bætur höfðaði bifhjólamaðurinn mál og krafðist fullra bóta. Maðurinn hafði betur í Héraðsdómi Reykjavíkur eftir að sérfróðir meðdómendur lögðu mat á hraða hjólsins og bifreiðarinnar þegar slysið varð.

Landsréttur ógilti dóminn árið 2019 og vísaði aftur í hérað með þeim rökum að aðeins hefði mátt kalla annan meðdómandann til þar sem mat þeirra laut að sama vafaatriði málsins.

Þá varð niðurstaðan sú að manninum var gert að bera tjón sitt að þriðjungi og staðfesti Landsdómur þá niðurstöðu.

Áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar var veitt í ágúst vegna mögulegs fordæmisgildis málsins, einkum varðandi tilkynningarskyldu tryggingafélags hygðist það nýta rétt sinn til takmörkunar á ábyrgð. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV