Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Tæpir 50 milljarðar í arð til hluthafa bankanna

10.02.2022 - 17:05
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Stóru viðskiptabankarnir þrír, Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn, högnuðust samanlagt um rúman 81 milljarð króna í fyrra. Samkvæmt ársuppgjöri Íslandsbanka fyrir árið 2021 nam hagnaður fyrirtækisins 23,7 milljörðum króna í fyrra, samanborið við 6,8 milljarða árið áður.

Eigið fé Íslandsbanka nam 203,7 milljörðum króna í lok árs 2021 og eiginfjárhlutfall bankans var 25,3 prósent, samanborið við 23 prósent árið 2020. Markmið bankans var hlutfall upp á 16,5 prósent. Lausafjárstaða bankans er sterk segir í uppgjörinu og lausafjárhlutföll vel yfir innri viðmiðum bankans og kröfum eftirlitsaðila. 

Stjórn Íslandsbanka leggur til 11,9 milljarða arðgreiðslu við aðalfund bankans, auk þess sem stefnt er að því að greiða út umfram eigið fé eiginfjárhlutfall sem metið er á um 40 milljarða króna, að frádreginni arðgreiðslu, á næstu tveimur árum. Þá ætlar stjórn bankans að leggja til kaup á eigin bréfum að fjárhæð 15 milljarða króna á næstu mánuðum, að því gefnu að Seðlabankinn samþykki.

Landsbankinn hagnaðist mest viðskiptabankanna þriggja, eða um 28,9 milljarða króna, í fyrra. Arðsemi eigin fjár Landsbankans var 10,8 prósent árið 2021, samanborið við 4,3 prósent árið áður. Eigið fé Landsbankans var 282,6 milljarðar í fyrra og eiginfjárhlutfallið 26,6 prósent. Bankaráð Landsbankans ætlar að leggja til við aðalfund að greiddur verði út 14,4 milljarða króna arður vegna ársins 2021. Jafnframt er til skoðunar  að greiddur verði út sérstakur arður fyrir árið 2022.

Eigið fé Arion banka nam 195 milljörðum króna í árslok 2021 og var eiginfjárhlutfall bankans 23,8 prósent. Hagnaður bankans á árinu 2021 nam 28,6 milljörðum króna og arðsemi eiginfjár 14,7 prósent á árinu. Í tilkynningu Arion banka er greint frá því að hluthafar megi vænta arðgreiðslu að fjárhæð samanlagt 22,5 milljörðum króna og 4,3 milljarða króna eftirstöðva á gildandi endurkaupaáætlun.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV