Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Segja skipan ráðuneytisstjóra lögmæta

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ráðning Skúla Eggerts Þórðarsonar, fyrrverandi ríkisendurskoðanda í embætti ráðuneytisstjóra menningar- og viðskiptaráðuneytis, er sögð hafa verið heimil og í samræmi við gildandi lagareglur um flutning embættismanna. Þetta kemur fram í svari frá ráðuneytinu til Umboðsmanns Alþingis, sem óskaði skýringa á því að starfið hefði ekki verið auglýst til umsóknar.

„Í ljósi aðdraganda að stofnun nýs ráðuneytis, þess skamma tíma sem gafst til undirbúnings og þess að um nýtt embætti væri að ræða, var ekki annað talið mögulegt en að flytja starfandi embættismann úr sínu embætti yfir í nýtt embætti ráðuneytisstjóra í menningar- og viðskiptaráðuneytinu“ segir í svari ráðuneytisins.

Ráðherra óskaði eftir því við forseta Alþingis þann 27. janúar síðastliðinn að Skúli yrði færður úr embætti ríkisendurskoðanda, yfir í embætti ráðuneytisstjóra. Þá hafi Skúli einnig óskað eftir nýju embætti við forseta. Þær beiðnir voru samþykktar og taldi ekki þörf á að auglýsa embættið laust til umsóknar og er því til stuðnings í starfsmannalög.

„Heimilt er, án þess að starf sé auglýst laust til umsóknar, að ákveða að starfsmaður sem er ráðinn ótímabundið til starfa flytjist um afmarkaðan tíma eða varanlega milli stjórnvalda enda liggi fyrir samþykki viðkomandi forstöðumanns fyrir flutningnum og starfsmannsins sjálfs“ segir í svari ráðuneytis.