Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Nota kafbát til að sækja hina látnu í Þingvallavatni

10.02.2022 - 17:59
Mynd: RÚV / RÚV
Um sextíu manns vinna að því við Þingvallavatn að ná flugvélinni TF-ABB og líkum mannanna fjögurra sem fórust með henni á fimmtudaginn, upp úr vatninu. Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn Lögreglunnar á Suðurlandi, segir ætlunina að sækja lík mannanna áður en myrkur skellur á.

Aðgerðir við vatnið hafa gengið vel í dag, þrátt fyrir mikinn kulda. Hættulegar aðstæður sköpuðust fyrir kafara vegna ísmyndunar, því breyttust áætlanir og notaður var smákafbátur með myndavélabúnaði og griparmi til þess að færa hina látnu og koma þeim á yfirborðið.

Samkvæmt tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurlandi eru búið að ná þremur mannanna upp úr vatninu en leit stendur yfir að hinum fjórða. Að óbreyttu verður flugvélin hífð upp úr vatninu á morgun.

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á suðurlandi, ræddi við fréttamann um klukkan fjögur í dag.

Hvernig hafa aðgerðirnar gengið í dag?

„Þetta leit ekki vel út í morgun, en síðan hreyfði aðeins vind og þá brotnaði ísskörin sem var komin á vatnið. Þá gátum við sent út rörabáta sem gátu brotið meira og með því hefur okkur tekist að halda þessu opnu í dag“ segir Oddur. „Við erum í dag búin að ná upp líkum tveggja manna. Þau eru á leið til Reykjavíkur núna þar sem aðstandendur bera kennsl á þau“.

Hægt er að horfa á viðtalið við Odd Árnason yfirlögregluþjón í spilaranum hér að ofan.