Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Norrænt samstarf við framleiðslu bóluefna til skoðunar

10.02.2022 - 00:00
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Norðurlandaþjóðirnar hafa ráðist í greiningu á getu til rannsókna, þróunar og framleiðslu bóluefna, að frumkvæði Svía. Heilbrigðisráðherra segist fagna framtakinu og telur að þjóðirnar geti áorkað miklu með því að sameina krafta sína.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.

„Heimsfaraldur Covid-19 hefur varpað ljósi á mikilvægi öflugs samstarfs Norðurlandaþjóðanna, m.a. með samhæfingu aðgerða og viðbúnaði gegn skorti á hráefnum og aðföngum þegar vá stendur fyrir dyrum“ segir í tilkynningunni.

Ráðherrar Norðurlandaþjóðanna hafa einnig rætt um möguleikann á sameiginlegri framleiðslu og dreifingu lífsnauðsynlegra lyfja.

„Hlökkum til að sjá tillögur um næstu skref“

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra segir norrænt samstarf seint ofmetið og þjóðirnar búi að sterkum innviðum og mannauði. Þær geti áorkað miklu með því að sameina krafta sína.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segir löngu tímabært að greina tækifæri hérlendis þegar kemur að rannsóknum og nýsköpun í heilbrigðistækni. „Íslendingar geta lagt mikilvægan skerf til rannsókna og nýsköpunar á sviði bóluefna, í góðu samstarfi við grannþjóðir okkar á Norðurlöndunum. Við fögnum því verkefni sem nú fer af stað og hlökkum til að sjá tillögur um næstu skref“ segir Áslaug Arna um verkefnið.

Samningur hefur verið gerður við fyrirtækið Landás ehf. um umsjón með greiningunni hérlendis. Áætlað er að sameiginleg skýrsla Norðurlandanna um verkefnið verði tilbúin í maí næstkomandi.