Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Lögbrot og jafnvel stjórnarskrárbrot ef farið að kröfum

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Dómsmálaráðherra segir það lögbrot og jafnvel stjórnarskrárbrot ef fallist verði á  óskir þingsins um afhendingu upplýsinga frá Útlendingastofnun. Þingmenn hafa krafist þess vegna umsókna um ríkisborgararétt. 

Á fundi allsherjar- og menntamálanefndar um íslenskan ríkisborgararétt í morgun lagði 
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra  áherslu á að jafnræðis skyldi gætt við umsóknir um ríkisborgararétt, hvort sem þær færu til Alþingis eða Útlendingastofnunar. Hann sagði jafnframt unnt að afgreiða tugi umsókna næstu daga. Það ætti að vera undantekning að umsóknir um ríkisborgararétt færu fyrir Alþingi en það virtist vera að verða reglan.  

„En það er ekkert sem kveður á um það í lögum  að þær eigi að fara fram fyrir í röðinni og þegar fjöldinn er svo mikill sem að raun ber vitni þá er þessi staða komin upp sem ég hef líst og viðbrögðin við henni. þannig að Útlendingastofnun er að okkar mati ekki heimilt við þessar aðstæður og á þetta hefur umboðsmaður Alþingis bent svo ég ítreki það að vera að taka einhverjar umsóknir sem berast til Alþingis fram yfir aðrar."

Málstími umsókna hefur styst verulega eða úr  átján mánuðum í sex mánuði að sögn ráðherra. Hann telur það ásættanlegan hraða í kerfinu. 
 
„Ég tel reyndar að ef eigi að vinna þetta með öðrum hætti og þeim hætti sem að Alþingi er að fara fram á sé verið að knýja stofnunina til að fremja lögbrot og jafnvel brot á stjórnarskrá. Og hérna Það er verið að fylgja lögum að öllu leyti af hálfu stofnunarinnar og við það stendur og ef að Alþingi vill fá breytingar á þessu  öðru vísi en að það sé gert í  einhverju samkomulagi um vinnulag við ráðuneytið og stofnunina þá verður Alþingi að setja lög um það að þeir sem  sækja um ríkisborgararétt til Alþingis eigi að njóta forgangs fram yfir aðra."