Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Hætta á að hópur ósýnilegs fólks þrífi eftir aðra

10.02.2022 - 08:39
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, vill breyta starfsumhverfi ræstingafólks í næstu kjarasamningum. Álagið á ræstingafólk er of mikið og starfsumhverfi þeirra ekki ásættanlegt, sagði Flosi í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Flosi sagði að samið hefði verið um yfirferð á vinnuhraða og umhverfi ræstingafólks í síðustu kjarasamningum en ekki orðið af því. Þess vegna hefði Starfsgreinasambandið leitað til Vinnueftirlitsins sem Flosi sagði að hefði sýnt fram á mikið álag ræstingafólks. „Það væri gert ráð fyrir að þeir ynnu allt of hratt, þetta leiddi til stoðkerfisvanda, veikindafjarvista og svo framvegis og framvegis.“

Vinnan við þetta er hluti af undirbúningi Starfsgreinasambandsins fyrir komandi kjarasamninga.

Flosi sagði starf ræstingafólks hafa breyst mikið frá því að vera starfsmenn fyrirtækja sem þeir ræsta í að vinna hjá stórum ræstingafyrirtækjum við þrif annars staðar. Áður hefði verið algengt að fólk í hlutastarfi kæmi inn í ræstingar í fyrirtækjum, til dæmis eftir aðra vinnu eða skóla. Nú væri það í fullu starfi. 

„Það var afar mikilvægt fyrir mitt fólk staðfest hjá Vinnueftirliti ríkisins að þær aðstæður sem það er farið að vinna við og sá hraði, að þeir vinna við þann hraða að það samsvarar því að þau gangi tíu kílómetra á klukkustund, það er ekki mönnum bjóðandi,“ sagði Flosi.

Hann sagði að útvistun ræstinga byggi til hættuna á að ræstingafólk einangraðist. „Þú ert sérmerkt, þú ferð ekki í kaffi með öðrum starfsmönnum, þú færð trúlega ekki jólagjöfina, þú ferð ekki í starfsmannapartíið, þú ferð ekki á árshátíðina og svo framvegis,“ sagði Flosi. „Við sjáum stundum þetta fólk ekki. Hér á höfuðborgarsvæðinu eru þetta trúlega 80-90 prósent fólk af erlendu bergi brotið. Kannski erum við að búa til í einhverjum skilningi pínulítið ósýnilegan hóp útlendinga sem þrífa eftir okkur skítinn.“

Flosi nefndi útvistun ræstingar hjá fyrirtækjum og stofnunum ríkis og sveitarfélaga. Þar væri fólk ekki lengur starfsmenn hjá hinu opinbera heldur á einkamarkaði. „Þannig að ríkið með því að útvista til dæmis allri ræstingu segir sig eiginlega frá kjarasamningum.“