Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Einfaldlega ekki rétt að verðbólgan sé innflutt

10.02.2022 - 20:25
Mynd: Fréttir / Fréttir
Verðbólgan er ekki innflutt og stýrivaxtahækkun Seðlabankanks í gær snerist fyrst og fremst um að taka til baka aðgerðir sem ráðist var í til að bregðast við faraldrinum. Þetta segir Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði sem á sæti í peningastefnunefnd Seðlabankans.

 

Peningastefnunefnd Seðlabankans hækkaði í gær stýrivexti um 0,75 prósentustig, líkt og verið hafði spáð undanfarið. Vextirnir eru hækkaðir í skugga vaxandi verðbólgu en ýmsir höfðu orðið til að hvetja Seðlabankann til að hækka vexti ekki, svo sem forseti Alþýðusambands Íslands sem sendi peningastefnunefnd bréf þess efnis í gær. Seðlabankinn spáir fimm prósenta verðbólgu á þessu ári, sem er tvöfalt verðbólgumarkmið bankans. Bankinn gerir ráð fyrir enn meiri verðbólgu á fyrsta ársfjórðungi, 5,8%.

Peningastefnunefnd lætur sér ekki nægja að hækka stýrivexti verulega heldur segist hún munu beita þeim tækjum sem hún hefur yfir að ráða til að tryggja að verðbólga hjaðni aftur í markmið innan ásættanlegs tíma. Verðbólgumarkmiðin ganga út á að verðbólga sé 2,5 prósent eða því sem næst. 5,7 prósenta verðbólgan sem mældist í síðasta mánuði er sú mesta frá því í apríl 2012.

Spegillinn ræddi hækkunina við Gylfa Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands sem á sæti í peningastefnunefnd Seðlabankans í dag. Hann segir að hækkunin nú sé liður í því að afnema þær aðgerðir sem ráðist var í þegar faraldurinn kom upp, til að mynda með því að lækka stýrivexti. Lægst fóru þeir í 0,75 prósent og hafa því hækkað sem nemur tveimur prósentum frá þeim tíma. 

Hann segir verðbólguna sem nú gerir landanum lífið leitt, sem og öðrum þjóðum sé ekki innfluttur. 

„Enn sem komið er verðbólgan búin til innanlands, þessi innflutti liðurinn í verðbólgunni hér er ennþá mjög lítill. Við njótum þess bæði að við þurfum ekki innflutta orku til að kynda húsin, það er gasverð sem er að hækka mikið, það hefur ekki áhrif hér eins og í Evrópu. Svo hefur gengi krónunnar styrkst síðurstu 12 mánuði um einhver 6 prósent þannig að það þarf færri krónur til að borga fyrir eina evru en fyrir einu ári síðan. Þessi alþjóðlega verðbólga hefur ekki eins mikil áhrif á okkur af því að við erum ekki eins háð orkunni. Svo hefur krónan styrkst, það mildar aðeins en það er möguleiki að á næstu mánuðum komi meira inn af verðbólgu í gegnum innflutninginn, vonandi ekki, og mjög mikilvægt að Samkeppniseftirlitið sé á verði gagnvart allskyns mögulegu hugsanlegu samráði sem gæti átt sér stað.“

En menn greinir á um þetta, hvort að verðbólgan sé innflutt eða ekki. Liggur það ekki fyrir?

Jú það liggur fyrir. Það er um það bil 60 prósent liða í verðvísitölunni sem hafa hækkað meira en tvö og hálft prósent. Þannig að verðhækkanir eru almennar, það er ekki bara húsnæði sem vegur mjög mikið heldur þjónustan hefur hækkað um 4,9 prósent. Innflutningurinn hefur hækkað í verði en það er tiltölulega lítið í þessari heildarmynd.“ segir Gylfi. 

„Það er rangt að segja, það er ekki rétt, ekki staðreynd að verðbólgan hérna sé bara innflutt verðbólga. Það er ekki rétt. Það er líka rangt að segja að verðbólgan hérna sé bara vegna þess að húsnæðisverð hafi hækkað vegna þess að Seðlabankinn lækkaði vexti. Það er rangt. Hún er miklu almennari, stafar af mikilli eftirspurn innanlands vegna þess að kaupmáttur hefur aldrei verið meiri, ríkissjóður er rekinn með halla, raunvextirnir eru neikvæðir.“ segir Gylfi.

Rætt var við hann í Speglinum. Viðtalið má heyra í heild sinni hér að ofan.