Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Verður leyft að hafa hjálpartæki með á hjúkrunarheimili

09.02.2022 - 17:56
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sviðsstjóri þjónustusviðs Sjúkratrygginga segir þörf á að leyfa lungnasjúklingum að taka létt lungnatæki með sér inn á hjúkrunarheimili. Ekki gangi að taka tækin af fólki.

Varaformaður Samtaka lungnasjúklinga segir mannréttindabrot að taka létt lungnatæki af fólki þegar það fer inn á hjúkrunarheimili. Heimilin eiga að sjá fólkinu fyrir tækjum en nokkur misbrestur hefur verið þar á.
Júlíana Aspelund er sviðsstjóri þjónustusviðs Sjúkratrygginga 

„Kannski til að byrja með þá langar mig að taka undir með samtökum lungnasjúklinga um að það er mikilvægt að íbúar hjúkrunarheimila hafi greiðan aðgang að öllum nauðsynlegum hjálpartækjum og það felur að sjálfsögðu í sér ferðasúrefnissíurnar líka."

Samkvæmt reglugerð um  greiðslur öldrunarstofnana vegna hjúkrunarþjónustu þá eiga hjúkrunarheimili að tryggja að þeir sem þar dvelja fái nauðsynleg hjálpartæki. Jafnframt  segir um styrki til hjálpartækja að einungis hjólastóla og göngugrindur megi taka með sér inn á heimili sem og tjáskiptahjálpartæki. 

„Hins vegar er verið að endurskoða reglugerð um styrki vegna hjálpartækja með tilliti til þess að einstaklingar fái að taka með sér einstaklingsbundin hjálpartæki og haldi þeim réttindum eftir að þeir flytja inn á hjúkrunarheimili. Og þetta á við um margs konar tæki í rauninni."  „Fólk talar jafnvel um að brotin séu á því mannréttindi með því að taka þetta af því. Nógu mikið átak sé að fara inn á hjúkrunarheimili." „Já það er alveg nokkuð af tækjum sem að fólk þarf að skila þegar það fer inn á hjúkrunarheimili þannig að ég held að það sé mjög mikilvægt að breyta þessu og að það verði bara gert sem fyrst. Ég get ekki sagt hvenær það verður en vonandi sem fyrst."
 

 

Ólöf Rún Skúladóttir
Fréttastofa RÚV