
Þrír handteknir vegna morðs á mexíkóskri blaðakonu
- Sjá einnig: Þrír blaðamenn myrtir í Mexíkó það sem af er ári
Hin 67 ára gamla Maldonado var skotin fyrir utan heimili sitt í Tijuana þann 23. janúar síðastliðinn. Hún starfaði sem blaðamaður og ljósmyndari, en sérhæfði sig í því að fjalla um glæpi og glæpagengi í heimalandi sínu. Hún átti langan feril að baki og starfaði meðal annars fyrir fjölmiðilinn Primer Sistema de Noticas. Maldonado hafði nýlega unnið dómsmál gegn þeim fyrri vinnuveitenda sínum, fyrir ólögmæta uppsögn í starfi.
Samkvæmt gögnum samtakanna Blaðamenn án landamæra voru fleiri blaðamenn myrtir í Mexíkó á síðasta ári en í nokkru öðru landi. Fjórir blaðamenn hafa verið myrtir í landinu, aðeins það sem af er þessu ári. Aðeins örfáum dögum áður en Maldonado var skotin til bana, hlaut fréttaljósmyndarinn Margarito Martinez sömu örlög í borginni Tijuana.
Stjórnvöld í landinu sæta nú töluverðum alþjóðlegum þrýstingi um að tryggja vernd stéttarinnar í landinu.