Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Þrír handteknir vegna morðs á mexíkóskri blaðakonu

09.02.2022 - 23:16
epa09708601 A woman puts flowers in the installation as an act of protest against the murders of journalists outside the National Palace of Mexico City, Mexico, 25 January 2022. Journalists from various media outlets demonstrated over the murders of colleagues Margarito Martínez and Lourdes Maldonado, which occurred in recent days in the city of Tijuana.  EPA-EFE/Sashenka Gutierrez
 Mynd: EPA - RÚV
Þrír menn hafa verið handteknir af mexíkóskum yfirvöldum vegna morðsins á blaðakonunni Lourdes Maldonado. Morðið vakti heimsathygli, ekki síst þar sem Maldonado er sögð hafa óskað eftir vernd stjórnvalda fyrir andlátið, þar sem hún hafi óttast um líf sitt.

Hin 67 ára gamla Maldonado var skotin fyrir utan heimili sitt í Tijuana þann 23. janúar síðastliðinn. Hún starfaði sem blaðamaður og ljósmyndari, en sérhæfði sig í því að fjalla um glæpi og glæpagengi í heimalandi sínu. Hún átti langan feril að baki og starfaði meðal annars fyrir fjölmiðilinn Primer Sistema de Noticas. Maldonado hafði nýlega unnið dómsmál gegn þeim fyrri vinnuveitenda sínum, fyrir ólögmæta uppsögn í starfi.

Samkvæmt gögnum samtakanna Blaðamenn án landamæra voru fleiri blaðamenn myrtir í Mexíkó á síðasta ári en í nokkru öðru landi. Fjórir blaðamenn hafa verið myrtir í landinu, aðeins það sem af er þessu ári. Aðeins örfáum dögum áður en Maldonado var skotin til bana, hlaut fréttaljósmyndarinn Margarito Martinez sömu örlög í borginni Tijuana.

Stjórnvöld í landinu sæta nú töluverðum alþjóðlegum þrýstingi um að tryggja vernd stéttarinnar í landinu.