Liðin mættust í Smáranum í Kópavogi en heimakonur voru sterkai í fyrri hálfleik og leiddu að honum loknum með níu stigum 57-48 fyrir Breiðablik. Njarðvík náði að minnka muninn í tvö stig þegar ein og hálf mínúta var til leiksloka, 67-69, en nær komust Njarðvíkingar ekki og Breiðablik vann 6 stiga sigur 76-70.
Michaela Kelly átti stórleik fyrir Breiðablik og skoraði 37 stig, tók sjö fráköst og átti þrjár stoðsendingar. Aliyah Collier var stigahæst í liði Njarðvíkur með 32 stig. Breiðablik hefur nú unnið tvo leiki í röð í deildinni. Fyrir leik kvöldsins var liðið með 6 stig á botninum eins og Grindavík en fara með sigrinum upp fyrir þær og í sjötta sætið með 8 stig.
Valur skaut sér á topp deildarinnar
Tap Njarðvíkur opnaði leið fyrir Val á toppinn en liðin voru jöfn að stigum fyrir leiki kvöldsins með 20 stig. Valur mætti Keflavík í kvöld og voru Valskonur fljótar að ná undirtökunum á heimavelli sínum í kvöld. Í hálfleik munaði 18 stigum á liðunum, 48-30 fyrir Val. Þennan mun náði Keflavík aldrei að brúa að ráði. Valur vann að lokum með 11 stiga mun 84-73 og tyllti sér með því á topp deildarinnar.
Ameryst Alston var atkvæðamest í liði Vals með 26 stig, 8 fráköst og 9 stoðsendingar en Ásta Júlía Grímsdóttir lét líka til sín taka hjá Val og gerði 21 stig. Valur er nú tveimur stigum á undan Njarðvík og Fjölni en Njarðvík á einn leik til góða og Fjölnir tvo.