Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Fólk með reynslu af sjálfsvinnu „tengir bara svona“

Mynd: RÚV / RÚV

Fólk með reynslu af sjálfsvinnu „tengir bara svona“

09.02.2022 - 15:19

Höfundar

Innra með okkur búa nokkrir og jafnvel margir, segir leikari í nýju sýningunni Blóðuga kanínan, eftir Elísabetu Jökulsdóttur. Í verkinu þarf persóna Dísu að horfast í augu við alls kyns furðufugla sem búa innra með henni og kafa djúpt ofan í undirmeðvitundina.

„Þetta er leikrit um stelpu sem er með áfallastreituröskun, við erum búin að komast að því. Og hún klofnar svona í marga parta sem hún verður síðan að sættast við af því þeir eru farnir að stjórna lífi hennar; trúðurinn, hetjan, fáráðlingurinn og píslarvotturinn,” sagði Elísabet Jökulsdóttir, höfundur verksins, í Kastljósi í gær.  

Guðmundur Ingi Þorvaldsson, leikstjóri verksins, segir að hann hafi rætt við Elísabetu um að setja á svið sýningu hennar, Mundu töfrana! Að endingu komst Guðmundur að því að hann sæi ekki fyrir sér að setja það á svið með góðu móti, en þá kom Blóðug kanína Elísabetar eiginlega aftan að honum. 

Það gerðist þegar hann var orðinn fagstjóri í Listaháskóla Íslands og tók á móti ungum manni í leikaraprufu. Sá fór með einræðu fyrir Guðmund úr Blóðugu kanínunni og varð Guðmundur hvumsa. Hann taldi sig þekkja öll verk Elísabetar en annað kom á daginn. Guðmundur ræddi málið við Elísabetu og úr varð að Blóðuga kanínan skyldi sett á svið. 

„Þetta er eins og Lísa í Undralandi. Hún heitir Dísa í þessu verki, sem þarf að fara í gegnum öll hliðarsjálfin sín, allt sem hún er búin að búa til eftir áfall, til þess að finna særða barnið í sér sem er falið dýpst ofan í undirmeðvitundinni,” segir Guðmundur um verkið og bætir við: 

„Það fólk sem hefur kíkt á rennsli hjá okkur og hefur einhverja reynslu af sjálfsvinnu tengir bara svona,” segir Guðmundur og smellir fingrum til þess að leggja áherslu á orð sín.  

Höldum upp á mörg hliðarsjálf en önnur þolum við ekki

Og orð hans ríma við það sem leikarar segja um sýninguna. Þóra Karítas Ásgeirsdóttir fer með hlutverk Dísu, sem hún segir að hafi ef til vill „týnt lyklinum að lífinu”. 

„Hún ákveður að opna bara veitingastað. Það er búið að vera svolítið erfiðir tímar, stríð í gangi. Hún opnar veitingastað þar sem allt er gott. Nema hvað að það koma alls kyns furðufuglar á þennan veitingastað sem hún kannast við og fara einhvern veginn að hræra í henni. Og við það fattar hún að hún getur ekki leikið þetta hlutverk sem hún er að leika, sem er þessi þjónustustúlka, og þarf að fara að horfast í augu við af hverju hún sé að reyna að búa til lokaða veröld, sem enginn má komast inn í nema trúðurinn og annað fólk sem er svona eiginlega innra með henni,” segir Þóra Karítas. 

„Í mismunandi aðstæðum beitum við mismunandi hlutum af okkar eigin persónuleika. Og við eigum í misgóðu sambandi við þá, suma höldum við rosalega mikið upp á en aðra viljum við helst bara loka einhvers staðar ofan í kistli og fela undir rúmi. Þannig að vissulega kannast maður við það að í manni búi nokkrir og jafnvel margir,” segir Ævar Þór Benediktsson, sem fer með hlutverk trúðsins sem býr innra með Dísu.  

Blóðuga kanínan verður frumsýnd í Tjarnarbíói á föstudag.