Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Fasteignir halda áfram að hækka í verði

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Verð á fasteignum hækkaði um 1,5% á landinu öllu í desember miðað við vísitölu söluverðs Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS). Hækkun á einu ári nemur 16,6 prósentum en það er sérbýli á höfuðborgarsvæðinu sem mest áhrif hefur á hana. Greinendur gera ráð fyrir hækkun stýrivaxta Seðlabankans.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í mánaðarskýrslu stofnunarinnar fyrir febrúar sem kemur út í dag.

Enn fækkar íbúðum til sölu en í febrúarbyrjun voru þær um eitt þúsund talsins sem er 74% færra en þegar mest var í maí 2020 en þá voru nærri fjögur þúsund íbúðir til sölu.

Samdrátturinn er mestur á höfuðborgarsvæðinu auk þess sem mjög hefur dregið úr framboði á nýjum íbúðum. Þær voru tæplega 70 talsins í byrjun febrúar en um 900 í maí 2020.

Í skýrslunni kemur fram að um tuttugu daga tæki að selja þær íbúðir sem í boði voru í janúar tæki það að meðaltali jafn langan tíma að selja hverja þeirra og var í desember.

Met var slegið í fjölda kaupsamninga á síðasta ári en þeir voru 14.200 samanborið við um 12.500 árið 2020.

Greinendur HMS telja að Seðlabankinn hækki stýrivexti í næstu vaxtaákvörðun sem tilkynnt verður síðar í dag. Það geti leitt af sér hækkun greiðslubyrði húsnæðislána en þó skiptir máli hve mikil áhrif stýrivaxtahækkunin hefur á hækkun vaxta þeirra lána.