Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Tíu dögum á undan áætlun og tíðindi boðuð á föstudag

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segist vonast til að kynna næstu skref í afléttingum eftir ríkisstjórnarfund á föstudag. Hann segir að miðað við stöðuna séum við um tíu dögum á undan þeirri áætlun.

„Við erum í þessu heildstæða mati sem þarf að fara fram þegar við gerum breytingar. Gleðitíðindin eru þau að við erum á undan áætlun, þetta hefur gengið ágætlega. Við getum sagt að við séum svona tíu dögum á undan áætlun,“ segir Willum.

Hann boðar að næsta skref í áætluninni, sem átti að verða að veruleika 24. febrúar, geti komið fyrr. Hann segist nú hafa kallað eftir mati landlæknis á stöðu heilbrigðisstofnana sem þarf að fylgjast með, og mati sóttvarnalæknis á stöðunni. Þá fer reglugerð fyrir ráðherranefnd á fimmtudag og ríkisstjórn á föstudag.

„Þannig þetta ætti að geta orðið að veruleika á föstudag.“

Samkvæmt minnisblaði sóttvarnalæknis varðandi afléttingaráætlun, og hvað átti að gerast þann 24. febrúar, sagði meðal annars að almennar fjöldatakmarkanir yrðu 200 manns, og þúsund á sitjandi viðburðum. Sundstaðir og líkamsræktarstöðvar megi taka við hámarksfjölda. Skemmtistaðir og krár mega hafa opið til miðnættis, og síðustu gestir þurfa að vera farnir klukkan 01. Þá yrðu reglur um einangrun og sóttkví felldar niður.